Lifrarbólga A

Lifrarbólga A er sjúkdómur sem orsakast af veiru (hepatits A virus). Hann er landlægur í Afríku, Suður-Ameríku og víðast hvar í Asíu.

Lifrarbólga A er sjaldséður sjúkdómur á Íslandi og þau tilfelli sem koma upp eru oftast vegna smits sem viðkomandi verður fyrir erlendis.

Smitleiðir
Aðalsmitleiðin er með saur-munn smiti, ýmist beint eða óbeint. Veiran skilst út með saur sýktra og smitandi einstaklinga sem eru smitandi frá því tveim vikum áður en einkenna verður vart þar til einni viku eftir upphaf einkenna.

Veiran lifir lengi í vatni og getur t.d. fjölgað sér í ostrum og kræklingum. Veiran getur einnig smitast með öðrum matvælum sem ýmist hafa mengast frá smitandi einstaklingi eða með menguðu vatni. Smitið getur einnig borist beint á milli manna við náin samskipti, t.d. milli þeirra sem búa á sama heimili, í daggæslu barna eða við kynmök.

Einkenni
Í fyrstu eru undanfarandi einkenni gulu ráðandi með sem líkjast flensueinkennum, ónotum í efri hluta kviðar, lystarleysi og ógleði, hita allt að 39°C og stöku sinnum vöðva- og liðverkjum. Nokkrum dögum síðar getur komið fram gula og dökknar þá þvag og hægðir lýsast. Gula og kláði geta varað vikum og mánuðum saman. Ekki fá allir sem sýkjast einkenni, en flestir finna fyrir þreytu og lítilli matarlyst í vikur eða mánuði. Börn fá sjaldnar einkenni en fullorðnir og stærstur hluti barna undir sex ára aldri er einkennalaus en þau geta hæglega borið smitið áfram. Lifrarbólga A gengur alltaf yfir, þ.e. sýkingin verður aldrei langvinn.

Meðgöngutími lifrarbólgu A, þ.e. tími frá smiti til upphafs einkenna, er oftast um fjórar vikur, en getur verið allt frá tveimur til sex vikur.

Greining
Lifrarbólga A er greind með mótefnamælingum í blóði. Niðurstöður liggja fyrir innan nokkurra daga frá því að próf er tekið.

Meðferð
Lifrarbólga A gengur sjálfkrafa yfir án nokkurrar meðferðar.

Forvarnir
Gæta ber fyllstu varúðar við val matar og vatns í löndum þar sem hreinlæti gæti verið ábótavant. Hægt er að fyrirbyggja lifrarbólgu A með bólusetningu eða með því að gefa mótefni í vöðva. Mótefnin veita vörn í einungis 2–3 mánuði. Bóluefnið er gefið í tveimur sprautum með 6–12 mánaða millibili einstaklingum eins árs og eldri og talið er að það veiti vörn í a.m.k. 20 ár. Þegar kunnugt er um smit ber viðkomandi að hafa í huga að góður handþvottur eftir salernisferðir og áður en matvæli eru handleikin er áhrifamesta vörnin gegn því að smita aðra.


Bráð lifrarbólga er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis.

 

Tölfræðilegar upplýsingar um Lifrarbólgu A

Síðast uppfært 11.12.2019