Leptóspírósis

Leptóspírósa er súna (zoonosis), þ.e. sjúkdómur sem smitar bæði dýr og menn, og er algengur sjúkdómur í dýrum í heiminum. Á Norðurlöndunum er leptóspírósa hins vegar sjaldgæfur sjúkdómur í dýrum, en þrátt fyrir það sýna mælingar á mótefnum að smit á sér þar stað meðal dýra og á sennilega uppruna í nagdýrum. Á fyrri helmingi 19. aldar var leptóspírósa vel þekkt sýking í mönnum á Norðurlöndum, en síðastliðna áratugi hafa öll tilfellin verið hjá ferðamönnum sem urðu fyrir smiti með menguðu vatni á erlendri grundu.

Smitefni
Smitefnið er baktería sem kallast Leptospira interrogans. Bakterían er með margar sermisgerðir (serovar). Helstar þeirra eru: i) sermisgerð icterohaemorrhagiæ, sem er helsta orsök alvarlegustu sjúkdómsmyndarinnar, Weils-sjúkdóms, ii) sermisgerð canicola, sem smitaðist aðallega frá hundum en veldur mildari sjúkdómi en ofannefnd sermisgerð og iii) sermisgerð sejroe, sem var aðallega í kúm áður fyrr og olli sjúkdómi í bændum. Leptospira tilheyrir spíróketum, sem er samheiti fyrir undnar bakteríur.

Smitleiðir og meðgöngutími
Smit berst aðallega eftir snertingu við þvag eða vatn sem mengast hefur þvagi frá rottum eða öðrum smituðum dýrum. Algengast er að smitið berist frá nagdýrum en önnur villt dýr og húsdýr geta líka borið smitið. Bakterían fer inn um smá sár eða sprungur í húðinni en getur einnig borist í slímhúðir í augum, nefi og munni. Bakterían getur lifað marga mánuði í vatni og rakri jörð. Smit berst ekki manna á milli.

Meðgöngutími, þ.e. tími frá smiti þar til einkenni koma í ljós eru ein til tvær vikur.

Einkenni og fylgikvillar
Klínísk sjúkdómsmynd er breytileg. Algengust er sýking án einkenna eða sýking með hita og einkennum sem líkjast inflúensu sem ganga yfir án greiningar. Við Weils- sjúkdóm, sem er alvarlegasta sjúkdómsmyndin, fara bakteríurnar út í blóðið. Helstu einkenni eru þá hár hiti, kalda, höfuðverkur og beinverkir. Eftir 4 til 5 daga koma í ljós áhrif á lifrar- og nýrnastarfsemi með tilheyrandi gulu og vökvasöfnun í líkamanum. Einnig geta orðið blæðingar í slímhúðum og lungum. Þetta er lífshættulegt ástand sem getur leitt til dauða.

Greining
Greinargóð sjúkdómssaga með upplýsingum um utanlandsferðir og snertingu við óhreint vatn eða þvag frá dýrum. Blóð- og þvagræktun frá sjúklingi m.t.t . Leptospira interrogans. Einnig er hægt að mæla mótefni í blóðsýni frá viðkomandi.

Meðferð
Sýklalyfjameðferð, oftast penicillin.

Forvarnaraðgerðir
Notkun á gúmmístígvélum og gúmmíhönskum við vinnu þar sem talin er aukin hætta á smiti, t.d. við vinnu í klóaki. Forðast ber að baða sig í vatni ef möguleiki er á að það sé mengað með Leptospira.

Ekki er til bóluefni gegn sjúkdómnum.

 

Síðast uppfært 21.11.2016