Legionella

Sýking af völdum Legionella pneumophila greindist fyrst eftir ráðstefnu gamalla bandarískra hermanna sem haldin var á hóteli í Fíladelfíu árið 1976. Hátt í 200 manns veiktust og margir dóu. Við krufningu fannst bakterían í sýni frá lungum og var henni gefið nafnið Legionella pneumophila.

Nú eru þekktar yfir 40 tegundir Legíónella - bakteríunnar en einungis fáar þeirra eru sjúkdómsvaldandi í mönnum. 

Náttúruleg heimkynni bakteríunnar eru í vatni, hún þolir hitastig frá 0–63°C en kjörhitastig hennar er u.þ.b. 30–40°C. Legíónella getur lifað árum saman í vatnstönkum við 2–8°C og sest oft í lokuðum endum pípulagna stórra bygginga þar sem vatnið stendur kyrrt og hitastig er ekki hátt. 

Hérlendis hafa greinst stöku tilfelli, ýmist af innlendum uppruna eða eftir dvöl á hótelum erlendis. 

Einkenni 
Fullfrískir ungir einstaklingar geta fengið bakteríuna í öndunarvegi án þess að veikjast og er hún hættulítil í þeim tilvikum. Alvarleg veikindi verða yfirleitt hjá einstaklingum með undirliggjandi áhættuþætti. Helstu áhættuþættir eru hár aldur, reykingar, langvinnir lungnasjúkdómar, ónæmisskerðing, alkóhólsýki og nýrnabilun.

Sýking af völdum Legíónella birtist í eftirfarandi sjúkdómsmyndum:

Pontiac fever
Ungt fólk án undirliggjandi sjúkdóma getur fengið bráð flensulík einkenni með beinverkjum, hita, hrolli og höfuðverk án lungnabólgu. Einkennin ganga yfir á 2–5 dögum án meðferðar. Meðgöngutími sýkingarinnar, þ.e. tími frá smiti þar til einkenna verður vart er 1–2 sólarhringar.

Hermannaveiki (Legionnaires disease)
Helstu einkenni eru hiti, hrollur, hósti, beinverkir, höfuðverkur, lystarleysi og stundum niðurgangur. Lungnabólga er alltaf hluti af sjúkdómsmyndinni. Gangur sjúkdómsins er misslæmur og dauðsföll verða hjá 5–30% tilfella.

Meðgöngutími hermannaveiki, þ.e. tími frá smiti þar til einkenna verður vart, er 2–10 dagar.

Smitleiðir
Smit verður þegar svifúði (aerosol) myndast frá vatnsleiðslum eða vatnstönkum. Slík svifúðamyndun á sér oftast stað út frá loftkælingum og kæliturnum sem ætlaðir eru til kælingar á stóru iðnaðarhúsnæði, hótelum og verslunarmiðstöðvum. Vitað er um tilfelli eftir svifúðamyndun út frá heitum nuddpottum og gufu- og rakagjafa í grænmetisverslun. Sjúkrahússýkingar hjá inniliggjandi sjúklingum hafa einnig komið upp. Smit manna á milli á sér ekki stað.

Greining
Þrjár mismunandi aðferðir eru notaðar til greiningar á Legíónella-sýkingu:

  • Greining á mótefnavökum í þvagi.
  • Loftvegasýni til greiningar á erfðaefni bakteríunnar (PCR)
  • Sýni frá neðri loftvegum í ræktun.
  • Mæling á mótefnum í blóði.

Meðferð 
Engin þörf er á meðferð gegn Pontiac fever því að sjúkdómurinn gengur yfir án meðferðar. Hermannaveiki er hins vegar alvarlegur sjúkdómur sem ávallt ber að meðhöndla með sýklalyfjum og í mörgum tifellum er þörf á sjúkrahúslegu.

Forvarnir
Legionella pneumophila sýking er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis. Við grun um tilfelli af innlendum uppruna er mikilvægt að framkvæma rannsókn til að komast að uppruna smitsins og taka sýni frá hugsanlegum smitstað. Ekki er til bóluefni gegn sjúkdómnum.

  • Vatnsleiðslur stórra bygginga skulu vera þannig uppbyggðar að vatn standi ekki í leiðslunum.
  • Hitastig vatns >65°C dregur úr fjölda baktería í vatninu.
  • Fylgja ber ákveðnum verklagsreglum á sjúkrahúsum um m.a. meðferð sjúklinga í öndunarvélum og hreinsun á friðarpípum.
  • Klórun á vatni ber lítinn árangur.

 

Tölfræðilegar upplýsingar um Legionellu

Síðast uppfært 16.05.2019