Kólígerlar (Escherichia coli)

Ýmsar tegundir af kólígerlum geta valdið niðurgangi. Kólígerlar eru mjög útbreiddir í náttúrunni og allir einstaklingar hafa þá í þörmum. Sumir stofnar þeirra mynda eiturefni sem getur valdið niðurgangi. Þeir geta einnig valdið matarsýkingum.

Þessir sýklar eru sennilega algengasta orsök niðurgangs hjá ferðamönnum í sólarlöndum og er mjög erfitt að varast þá. Einkum er um kennt hrámeti alls konar og menguðu vatni.

Ferðamenn skyldu gæta fyllstu varúðar varðandi mataræði í þeim löndum þar sem niðurgangur er algengastur. Oftast er um tiltölulega væg einkenni að ræða, en geta þó verið talsvert svæsin og staðið nokkuð lengi. Á undanförnum árum hefur orðið vart við þess háttar sýkingar hér á landi. Þá hefur sums staðar erlendis borið á vaxandi fjölda sýkinga af völdum sérstakra kólígerla (E.coli O157:H7). Þeir mynda eiturefni sem valda m.a. alvarlegum blæðingum í þörmum. Þessi sýkill hefur einkum borist í menn með menguðu kjöti sem er soðið eða steikt á ófullnægjandi hátt.

 

Síðast uppfært 26.03.2012