Kólera

Kólera er sýking í meltingarfærum orsökuð af bakteríunni Vibrio cholerae af sermisgerðunum O1 og O139. V. cholerare 01 er með tvær lífgerðir, sem kallast klassísk og El Tor.

Sýkingar völdum V.cholerae eru afar sjaldséðar á vesturlöndum en sjúkdómurinn er landlægur í þróunarlöndunum þar sem hreinlæti er ábótavant. Á tímabilinu 1817–1961 komu upp sjö heimsfaraldrar sem oftast áttu uppruna sinn í Asíu og bárust hægt til Evrópu og Ameríku. Sá síðasti kom upp 1961 í Indónesíu og barst víða um heim á næstu áratugum. Allir þessir sjö heimsfaraldrar eru taldir vera af völdum Vibrio cholerae O1. Árið 1992 varð á Indlandi í fyrsta sinn vart sýkingar af völdum Vibrio cholerae O139. Þessi stofn hefur síðan þá greinst í a.m.k. 11 löndum í Suð-austur Asíu og ekki er ólíklegt að hann eigi eftir að dreifast víðar.

Á síðustu árum hefur kólera víða komið upp, oftast í tengslum við slæma hreinlætisaðstöðu og ófullnægjandi aðgang að hreinu vatni. Slíkar kringumstæður geta myndast við hamfarir sem rjúfa vatnsleiðslur og eyðileggja hreinlætiskerfi. Annað dæmi er fólksflutningar sem leiða til mikils mannfjölda sem dvelur við slæmar aðstæður í lengri tíma í flóttamannabúðum með takmarkaðan aðgang að hreinu vatni og viðundandi hreinslætisaðstöðu. Auk þess er kólera landlæg víða þar sem hreinlæti er ábótavant. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að á hverju ári veikist frá 1,3 til 4 milljónir af kóleru sem leiðir til 21.000–143.000 dauðsföllum árlega.

V.cholerae þrífst vel á vatnasvæðum. Hún getur lifað árum saman og fjölgað sér utan mannslíkamans. Bakterían myndar eiturefni (toxín) sem veldur einkennum kóleru.
Smitskammturinn er stór, þ.e. mikinn fjölda baktería þarf til að valda sýkingu.

Smitleiðir
Aðalsmitleiðin er með vatni og mat sem mengast hefur með saur frá smitandi einstaklingum. Þegar neysluvatn mengast geta sýkingarnar verið mjög útbreiddar. Matvæli sem einna helst eru tengd sýkingum eru hrísgrjónaleifar, sjávarafurðir, hrár fiskur, hráar ostrur og grænmeti.
Beint smit manna á milli er sjaldséð.

Meðgöngutími
Meðgöngutími sýkingar, þ.e. tími frá smiti þar til einkenna verður vart er frá 12–72 klst.

Einkenni
Flestir þeirra sem smitast af kóleru eru einkennalausir, en geta borið bakteríuna í hægðunum í 1–2 vikur. Flestir sem fá einkenni eru með vægan sjúkdóm sem erfitt er að greina frá öðrum smitandi þarmasýkingum. Færri en 10% sjúklinga eru með dæmigerða sjúkdómsmynd kóleru með miklum vatnskenndum niðurgangi og uppköstum, en bráð sýking getur leitt til blóðþrýstingsfalls og dauða á mjög skömmum tíma.

Greining
Saursýni í ræktun.

Meðferð
Meðferð beinist að því að bæta upp tap á vökva og söltum sem verður vegna niðurgangs og uppkasta. Ef rétt meðferð er gefin, deyja minna en 1% þeirra sem sýkjast. Sýklalyfjameðferð kemur einnig til greina en hún styttir tímann sem einkenni vara og einnig tímann sem viðkomandi er með bakteríuna í hægðunum.

Forvarnir
Ferðamenn á landssvæðum þar sem kólera er landlæg ber að drekka soðið vatn eða vatn á flöskum og forðast fæðutegundir sem tengst hafa sýkingum af völdum V.cholerae. Til er bóluefni með þokkalega vörn gegn sýkingum af völdum V.cholerae O1, það veitir einnig vissa vörn gegn ferðamannaniðurgangi af völdum E.coli. Bóluefnið er ekki á skrá á Íslandi. Kólerusýking er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis.

Síðast uppfært 15.12.2016