Hand-, fót- og munnsjúkdómur

Iðraveirublöðrumunnbólga með útbrotum
(Hand-, foot- and mouth disease).

Faraldsfræði
Algengur sjúkdómur í ungum börnum (yngri en 10 ára) en fullorðnir geta einnig smitast. Sjúkdómurinn orsakast af ýmsum veirum, oftast Coxackieveiru A16, en nokkrar aðrar gerðir iðraveira geta valdið honum. Algengt er að hann gangi í litlum faröldrum, einkum á haustin. Sjúkdómurinn er oftast mildur og nánast allir jafna sig án meðferðar á 7–10 dögum. Í mjög sjaldgæfum tilfellum getur veiran valdið heilahimnubólgu.

Einkenni
Sjúkdómseinkenni eru sótthiti, sár í munni og húðútbrot með blöðrum á höndum og fótum. Sjúkdómurinn byrjar yfirleitt með vægri hitahækkun, lystarleysi, almennum slappleika og særindum í hálsi. Einum til tveimur dögum eftir að hiti byrjar myndast sár í munni. Þau byrja sem rauðir dílar sem þróast í blöðrur og síðan sár á tungu, gómum og innanverðum kinnum en eru yfirleitt mest áberandi í kokinu. Húðútbrot myndast á 1–2 dögum með rauðum skellum, sum með blöðrum, oftast í lófum og á iljum. Útbrot geta einnig komið á rasskinnar. Sumir einstaklingar fá einungis útbrot í munni án húðútbrota eða einungis húðútbrot án sára í munni.

Meðgöngutími sýkingar
Tími frá smitun þar til einkenni koma fram er vanalega 3–7 dagar.

Smitleiðir
Sjúkdómurinn getur smitast frá sýktum einstaklingum með beinni snertingu við vessa frá nefi og hálsi, vessa úr blöðrum og með hægðum. Veiran getur skilist út með hægðum í nokkrar vikur eftir að einkenni eru hætt. Ekki er hægt að koma algerlega í veg fyrir smitútbreiðslu sjúkdómsins.

Meðferð
Engin sérstök meðferð er til gegn veirunni, en sjúkdómurinn læknast af sjálfu sér á nokkrum dögum.

Sýkingavarnir:

  • Vandaður og tíður handþvottur dregur verulega úr hættu á smiti, einkum eftir bleiuskiptingar hjá börnum. 
  • Huga þarf vel að hreinlæti í umhverfi sýktra með vönduðum þrifum á snertiflötum, nota hreint sápuvatn og e.t.v. klórblöndu ef smitefni (s.s. hægðir) fer út í umhverfið.

Ákvörðun um að vera heima fer eftir almennri líðan barnsins, ef barnið er a.ö.l. hraust þarf ekki að útiloka það frá öðrum börnum. Hluti þeirra barna sem smitast fá engin einkenni og það rýfur því ekki smitleiðir að halda börnum með einkenni frá einkennalausum börnum.

 

Síðast uppfært 21.11.2016