Giardia

Giardia er frumdýr sem finnst um allan heim. Til eru margar tegundir Giardia, en Giardia lamblia er sú sem veldur sýkingum í mönnum. Giardia lamblia lifir einnig í dýrum og hefur m.a. fundist í músum, sauðfé, nautgripum, hundum og köttum. Þetta er ein af fyrstu þarmasýkingunum sem börn í þróunarlöndunum komast í kynni við. Börnin mynda síðan að öllum líkindum ónæmi, og í löndum þar sem sjúkdómurinn er algengur, er tíðni sýkingarinnar í fullorðnum lægri en í börnum. Til skamms tíma var nánast ekkert um smit af innlendum toga hérlendis, en svo virðist sem Giardia lamblia sé nú orðin landlæg á Íslandi.

Lífsferill Giardia lamblia er tvískiptur, hreyfanlegt stig og þolhjúpar. Þolhjúpurinn er hvíldarfasi frumdýrsins, en þegar það berst niður í skeifugörn fer það yfir í hreyfanlegt stig, sem fjölgar sér og veldur sjúkdómseinkennum. Þegar neðar dregur í meltingarveginum verða aðstæður óhagstæðari og það tekur form þolhjúps að nýju.
Smitskammtur er lítill og meðgöngutími sýkingar, þ.e. tími frá smiti þar til einkenna verður vart, er ein til tvær vikur.

Smitleiðir
Vatn sem mengast hefur með Giardia lamblia er ein algengasta smitleiðin, einkum í fyrrum mið- og austurhluta Evrópuaustantjaldslöndum og þróunarlöndunum. Yfirborðsvatn mengast auðveldlega og af þeim sökum eiga sér stað sýkingar á afmörkuðum svæðum í hinum vestræna heimi. Smit með grænmeti, sem borist hefur í grænmetið með menguðu vatni, er einnig vel þekkt. Smitið getur líka borist beint manna á milli og er það algengasta smitleiðin í dagvist barna. Beint smit á sér einnig stað meðal samkynhneigðra karla.


Einkenni
Helstu einkennin eru niðurgangur með illa lyktandi hægðum, oft fitusaur, vindgangur, kviðverkir, ógleði og í einstaka tilfellum uppköst. Einkenni geta verið mismikil hjá einstaklingum, hluti smitaðra fá engin einkenni, aðrir fá bráðan niðurgang sem gengur sjálfkrafa yfir á nokkrum dögum og þriðji hópurinn fær langvinnan sjúkdóma með endurteknum niðurgangsköstum og meðfylgjandi hættu á vannæringu og þyngdartapi, ef sýklalyfjameðferð er ekki gefin.

Fylgikvillar
Vannæring, vaxtarskerðing og þyngdartap er vandamál í þróunarlöndunum þar sem sýkingin er tíð og meðferð er ábótavant.
Dæmi eru um slæman sjúkdóm hjá ófrískum konum og börnum undir 5 ára aldri, sem leitt hafa til tímabundinnar innlagnar á sjúkrahús. Afar sjaldséður fylgikvilli er sýking í gallblöðru með verkjum og gulu.

Greining
Saursýni í smásjárskoðun. Greining getur verið erfið vegna óreglulegs útskilnaðar og oft þarf að skoða fleiri en eitt sýni með eins til tveggja daga millibili til að greining fáist. Í undantekningartilfellum, ef greining fæst ekki með saursýni, er gert skeifugarnarsog eða tekið vefjasýni frá skeifugörn til greiningar.

Meðferð
Sýklalyfjameðferð (metronidazol).

Forvarnir
Góður handþvottur og rétt meðhöndlun matvæla dregur úr líkum á smiti.
Börn á leikskólaaldri með niðurgang af völdum Giardia lamblia eiga ekki að vera í dagvist með öðrum börnum.
Bóluefni gegn Giardia lamblia er ekki til.

Giardia lamblia sýking er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis.

Tilkynningarskylda - skráningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af Giardiu með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

 

Síðast uppfært 24.11.2016