Enterohemoragísk E. coli

Enterohemorragísk E. coli (EHEC) sýking orsakast af Escherichia coli (E.coli) bakteríu, sem framleiðir ákveðið eiturefni (toxín) sem á sök á mörgum skaðlegum einkennum sýkingarinnar. Þær tegundir E. coli baktería sem þessum sýkingum valda eru ýmist nefndar verotoxín myndandi E. coli (VTEC) eða shigatoxin myndandi E. coli (STEC). Þeim má skipta í STEC 1 og 2 þar sem að þau bera genin stx1 og stx2 sem mynda eiturefnin sem valda veikindunum. Hægt er að greina stx1 og stx2 í undirtegundir sem eru mismikið meinvaldandi, en undirtegundirnar 2a, 2c og 2d, ásamt 1a eru talin mest meinvaldandi með mestar líkur á Hemolytic Uremic Syndrome (HUS), sjá skýringu undir “Fylgikvillar”. Auk þess eru bakteríur sem bera eae genið, sem eykur viðloðun bakteríunnar við slímhúð meltingarvegarins, líklegri til að valda HUS.

Meðgöngutími
Meðgöngutími sýkingarinnar, þ.e. tími frá smiti til einkenna frá meltingarvegi, er yfirleitt 2–4 sólarhringar en lengri tími líður þar til einkenni HUS koma fram eða 1–2 vikum síðar.

Uppruni og smitleiðir
Jórturdýr, einna helst nautgripir, eru hýslar fyrir EHEC. Sýkingin flokkast til súna (zoonosis), en súnur eru sýkingar sem geta borist á milli manna og dýra. Helsta smitleiðin í menn er með menguðum matvælum og vatni en einnig getur beint smit manna á milli átt sér stað, þá einna helst hjá litlum börnum. Beint smit frá dýrum í menn er einnig vel þekkt. Fyrri hluta árs 2019 var sýnt fram á að EHEC finnst bæði nautgripum og í sauðfénaði á Íslandi og um sumarið sama ár kom upp stór hópsýking sem tengdist heimsókn á ferðaþjónustubæ á suðurlandi þar sem hægt var að umgangast dýr og kaupa heimatilbúinn ís.

Matarsýkingar eru oft tengdar illa elduðum afurðum nautgripa eins og roast beef, hamborgurum og ógerilsneyddri mjólk og afurðum hennar. Einnig er vitað um smit með salati og eplasíder. Erlendis hafa komið upp sýkingar í kjölfar sundferða í vötnum og sundlaugum með EHEC-menguðu vatni. Stór faraldur í Þýskalandi árið 2011 var rakinn til baunaspírufræja frá Egyptalandi. Tæplega 4000 manns greindust með sýkinguna í þeim faraldri, rúmlega 800 fengu Hemolytic Uremic Syndrome (HUS) og 54 létust.

Einkenni
Einkenni geta verið mismikil og smitaður einstaklingur getur verið einkennalaus. Eitt helsta einkennið er niðurgangur. Í sumum tilfellum geta fylgt slæmir kviðverkir og/eða uppköst og oftast fylgir enginn hiti. Þessi fyrstu einkenni ganga venjulega yfir á 5–7 dögum. Hluti þeirra sem smitast fær blóðugan niðurgang, stundum í beinu framhaldi af fyrstu einkennum frá meltingarvegi en í sumum tilvikum verður hlé á niðurgangi í einhverja daga og byrjar svo blóðugur niðurgangur.

Fylgikvillar
Alvarlegur fylgikvilli EHEC er Hemolytic Uremic Syndrome (HUS) sem kemur oftast hjá börnum yngri en 10 ára (6–10%). Helstu einkennin eru nýrnabilun, blóðfrumufæð (hemolýtísk anemia) og fækkun á blóðflögum, sem getur leitt til blæðinga. Verður þeirra yfirleitt fyrst vart u.þ.b. 1–2 vikum eftir upphaf meltingarfæraeinkenna, sjaldan síðar. Í mörgum tilfellum HUS reynist dvöl á gjörgæsludeild og skilun (blóð- eða kviðhreinsun) vegna nýrnabilunar nauðsynleg. Þessi fylgikvilli getur valdið óafturkræfum skaða á nýrum og jafnvel leitt sjúklinginn til dauða.

Greining
Saursýni er sent í ræktun og greiningu á erfðaefni stx1 og stx2 ásamt eae geninu á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, en senda þarf sýnið erlendis til að greina stx undirtegundir. Bakterían hverfur fljótt úr hægðum og getur verið horfin þegar einkenna HUS verður vart en erfðaefnispróf geta verið gagnleg lengur þótt ræktun takist ekki.

Meðferð
Sýkingin sjálf gengur fljótt yfir og er ekki þörf á sýklalyfjameðferð til að losna við bakteríuna. Þar að auki getur sýklalyfjameðferð aukið líkur á HUS.

Fyrirbyggjandi aðgerðir
Gott hreinlæti er mjög mikilvægt.

 • Þvoið hendur með sápu og vatni eftir salernisferðir, eftir snertingu við dýr og fyrir alla meðferð matvæla.
 • Vel steikt lamba- og nautakjöt, sérstaklega ef það er hakkað, dregur úr líkum á smiti.
 • Forðist neyslu ógerilsneyddrar mjólkur og afurða hennar.
 • Mikilvægt er að þvo grænmeti og ávexti vel áður en þeirra er neytt.
 • Forðist að gleypa ómeðhöndlað yfirborðsvatn í sundlaugum, heitum pottum, gosbrunnum, ám, lækjum og tjörnum.
 • Ef grunur leikur á að vatn sé mengað með STEC er hægt að forðast smit með suðu drykkjarvatnsins í a.m.k. eina mínútu.
 • Æskilegt er að þvo og/eða afhýða hrátt grænmeti og ávexti fyrir neyslu.
 • Ekkert bóluefni er til gegn STEC.

 

Viðbrögð við einstökum sýkingatilfellum eða hópsýkingu/sýkingahrinu

Áður en undirtegund stx1 og stx 2 er þekkt skal gera ráð fyrir að allar STEC sýkingar geti leitt til HUS og aðgerðir vera í samræmi við það. Til greina kemur að draga úr aðgerðum þegar niðurstöður undirgreininga liggja fyrir og stofninn tilheyrir ekki þeim undirtegundum sem eru mest meinvaldandi. Þar til endanleg greining liggur fyrir er því ráðlegt að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum.

 • Þeir sem eru með staðfesta sýkingu mega ekki fara í sund eða potta á meðan einkenni eru til staðar (sérlega mikilvægt fyrir bleiubörn).
 • Kanna þarf hvort fleiri eru með einkenni og taka sýni frá þeim sem eru með einkenni STEC sýkingar.
 • Ef barn í dagvistun greinist með STEC skal hafa samband við dagvistunina ef barnið dvaldi þar dagana fyrir veikindi eða var með einkenni sýkingarinnar í dagvistuninni.
 • Ef grunur leikur á hópsýkingu eða sýkingahrinu skal hafa samband við umdæmis-/svæðislækni sóttvarna og heilbrigðiseftirlit á viðkomandi svæði, t.d. ef tvö eða fleiri tilfelli greinast.
 • STEC er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis.
 • Þeir sem greinast með STEC og eru ekki í starfi með aukna smithættu eða áhættu, eiga ekki að vera í vinnu meðan þeir eru með einkenni. Þeir mega koma aftur í vinnu þegar þeir hafa verið einkennalausir í tvo sólarhringa. Nauðsynlegt er að vera með góða handhreinsun fyrstu vikurnar eftir smit og ekki tilreiða mat fyrir aðra fyrr en þremur vikum eftir að einkenni hverfa.

 

Störf með aukna smithættu eða áhættu og dagvistun barna

Eftirfarandi hópar, sem teljast vera með aukna smithættu eða starfa við ummönnun mjög veikra sjúklinga, mega snúa aftur til vinnu eða í dagvistun barna þegar þeir hafa skilað tveimur neikvæðum saursýnum. Fyrsta sýnið má taka í fyrsta lagi þremur dögum eftir að einkenni hverfa og endurtaka má sýnatöku 24 klst. síðar.

 • Þeir sem starfa við framleiðslu, flutning eða framreiðslu matvæla og eru í beinni snertingu við ópökkuð matvæli.
 • Heilbrigðisstarfsmenn sem eru í beinum samskiptum við sjúklinga sem eru með alvarlega ónæmisbælingu, eða eru inniliggjandi á vökudeild eða gjörgæslu.
 • Börn í dagvistun.
 • Heilbrigðisstarfsmenn sem eru ekki í beinni umönnun ofangreindra sjúklingahópa mega koma til vinnu þegar þeir hafa verið einkennalausir í tvo sólarhringa, en mega ekki tilreiða mat fyrir sjúklinga fyrr en þeir hafa skilað neikvæðum saursýnum eins og lýst er fyrir ofan.

Síðast uppfært 09.12.2019