Cryptosporidium sýking

Cryptosporidium er sníkjudýr (protozoa) sem fyrirfinnst um allan heim og getur valdið sýkingu í meltingarvegi, bæði hjá mönnum og dýrum. Til eru margar tegundir af Cryptosporidium en einungis tvær þeirra eru þekktar fyrir að valda sýkingum í mönnum. Cryptosporidium parvum sem veldur sýkingum bæði í dýrum og mönnum og Cryptosporidium hominis sem hefur bara greinst hjá mönnum.

Sýkillinn varð fyrst þekktur sem sýkingavaldur í mönnum 1976, en sýkingahrinu af hans völdum var fyrst lýst 1984. Ónæmisbældir einstaklingar, t.d. þeir sem eru með alnæmi, geta orðið alvarlega veikir af hans völdum.

Smitleiðir
Cryptosporidium lifir í smágirni sýktra manna og dýra (einkum kálfa). Sýkillinn skilst út með hægðum, getur mengað hendur og yfirborð og þannig borist manna á milli. Sýkilinn er einnig að finna í jarðvegi, mat og vatni þar sem sýktir menn eða sýkt dýr hafa verið. Vatn er oft talið líkleg uppspretta smits. Smitskammtur fyrir menn er talinn vera 100 dýr í þolhjúpi en getur verið mun lægri fyrir þá sem hafa bælt ónæmiskerfi.

Meðgöngutími 
Meðgöngutími, þ.e. tími frá smiti þar til einkenni koma í ljós er einn til tólf dagar, oftast tveir til tíu dagar eftir að smitun átti sér stað.

Einkenni
Einkenni eru misslæm og eru sumir einkennalausir. Helstu einkenni eru niðurgangur, lausar og vatnskenndar hægðir, magakrampi, ólga í maga og væg hitahækkun. Frískir einstaklingar losa sig við sýkilinn og verða einkennalausir á þremur til fjórum vikum. Ónæmisbældir einstaklingar losa sig síður við sýkilinn og geta verið með langvarandi sýkingu sem ekki batnar, einkum meðal alnæmissjúklinga þar sem sýkingin getur verið mjög alvarleg.

Greining
Saursýni í smásjárskoðun þar sem leitað er að sníkjudýrum. Sýkingin getur verið erfið í greiningu og stundum þarf fleiri en eitt sýni með eins til tveggja daga millibili til að staðfesta sýkingu.

Meðferð
Engin sértæk meðferð er til, sýkingin gengur sjálfkrafa yfir hjá heilbrigðu fólki. Mikilvægt er að drekka vel ef niðurgangur er til staðar.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Hreinlæti er mjög mikilvægt

  • Þvoið hendur með sápu og vatni eftir salernisferðir, eftir snertingu við dýr og fyrir alla meðferð matvæla. Þvoið hendur eftir bleiuskipti, jafnvel þótt notaðir hafi verið hanskar.
  • Ekki fara í sund eða potta ef viðkomandi er með niðurgang (sérlega mikilvægt fyrir bleiubörn).
  • Cryptosporidium er verndaður af ytri hjúp sem gerir það að verkum að hann getur lifað lengi utan líkamans og gerir hann einnig ónæman fyrir sótthreinsunarefnum sem innihalda klór.
  • Forðist að gleypa ómeðhöndlað yfirborðsvatn í sundlaugum, heitum pottum, gosbrunnum, ám, lækjum og tjörnum.
  • Ef grunur leikur á Cryptosporidium-mengun í vatni er hægt að forðast smit með suðu drykkjarvatnsins í a.m.k. eina mínútu eða síun með síu með gatastærð 1 micron.
  • Æskilegt er að þvo og/eða afhýða hrátt grænmeti og ávexti fyrir neyslu.

Viðbrögð við einstökum sýkingatilfellum eða faraldri 

Einstaklingar, sem greinst hafa með Cryptosporidium og vinna við matvæli eða á heilbrigðisstofnunum, eiga ekki að vera í vinnu meðan þeir eru með einkenni og þar til tveir dagar eru liðnir frá síðustu einkennum (niðurgangi). Ekki er talið nauðsynlegt að taka ný hægðasýni heldur nægir að fara eftir einkennum.

 

Tilkynningarskylda

Cryptosporidium-sýking er tilkynningarskyld. Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem greinast með Cryptosporidium-sýkingu með persónuauðkennum en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um hugsanlegan uppruna smits, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

 

Síðast uppfært 23.11.2016