Bótúlismi (Clostridium botulinum)

Bótúlínumsýkilinn hefur fundist í heimalöguðum súrum blóðmör. Hann getur myndað dvalargró sem þola mikinn hita. Sýkingar má oft rekja til lítillar söltunar eða of lítillar sýru í niðurlögðu grænmeti eða fiski. Sýkillinn vex í súrefnissnauðu umhverfi og til eru afbrigði af honum sem geta fjölgað sér við 3°C. Niðursuðudósir sem virðast bunga út vegna þrýstings innanfrá skyldi ekki opna þar sem sýkillinn getur stundum myndað gas inni í dósunum.

Sjúkdómseinkenni koma fram 6–36 klukkustundum eftir neyslu matvæla sem innihalda sýkilinn. Sýkillinn myndar eitur sem veldur öndunarerfiðleikum, sjóntruflunum og lömun. Upphafseinkennin eru tvísýni, kyngingarörðugleikar, ógleði, munnþurrkur og hægðatregða, en stundum niðurgangur.

Eitranir af völdum bótúlínumsýkilsins nefnast bótulismi. Þær eru mjög hættulegar og geta í sumum tilfellum verið banvænar. Börn geta fengið bótúlisma og veikst alvarlega af því að borða hunang. Því eru foreldrar varaðir við því að gefa börnum yngri en 12 mánaða hunang. Hunang getur innihaldið dvalargró Clostridium botulinum-sýkilsins. Dvalargróin geta tekið við sér í meltingarvegi svo ungra barna vegna sérstakra aðstæðna sem þar er að finna. Nái gróin að umbreytast í lifandi sýkla mynda þau eitur sem getur valdið mjög alvarlegum, jafnvel banvænum eitrunum sem koma fram í sljóleika, skertum viðbrögðum, kyngingarerfiðleikum, lömun og öndunarerfiðleikum. Barn með slík einkenni þarf að komast tafarlaust undir læknishendur. Bótúlismi er afar fátíður á Íslandi.

Síðast uppfært 21.01.2020