Augnsýkingar af völdum adenóveira
Adenóveirur eru algengasta orsök tárubólgu (conjunctivitis) en að auki geta þær valdið sýkingum með einkennum frá m.a. loftvegum, meltingafærum og miðtaugakerfi. Sýkingar af völdum adenóveira eru í gangi allt árið og oft verður vart tímabundinnnar aukningar á tilfellum í samfélaginu. Einnig eru faraldrar af völdum adenóveira vel þekktir, einkum við náin samskipti margra einstaklinga. Helstu dæmi eru sumarbúðir barna ásamt her- og æfingabúðum.
Lýst hefur verið a.m.k. 51 mismunandi sermisgerð (serotypes) adenóveiru í mönnum og er þeim skipt í 6 undirflokka frá A–F. Margar sermisgerðir eru tengdar ákveðnum sýkingum og einnig er sermisgerðin háð aldri sjúklings, ákveðnar sermisgerðir eru því algengari í börnum en fullorðnum eða öfugt. Sýking af tiltekinni sermisgerð gefur ágæta vörn gegn framtíðarsýkingum sömu sermisgerðar.
Helstu sýkingar af völdum adenóveiru og tengsl við sermisgerðir
- Hornhimnutárubólga í faröldrum (epidemic keratoconjunctivitis) tengist sermisgerðum 8, 19 og 37.
- Koktáruhiti (pharyngoconjunctival fever) tengist sermisgerðum 3 og 7.
- Efri og neðri loftvegasýkingar með kvefeinkennum, hálssærindum, hósta og hita tengist sermisgerðum 1, 2 og 4 hjá börnum og 3, 4 og 7 hjá fullorðnum.
- Iðrasýkingar með niðurgangi tengist sermisgerðum 2, 3, 5, 40 og 41.
- Blöðrubólga tengist sermisgerðum 7, 11 og 21.
- Sýkingar í miðtaugakerfi tengist sermisgerðum 2, 6, 7 og 12.
- Manna á milli með höndum.
- Bein snerting við vessa úr auga úr sýktum einstakling.
- Óbein snerting við sýkta vessa með snertingu við mengað yfirborð, menguð áhöld eða mengaða vökva.
- Brýna skal fyrir smitberum að þvo sér oft um hendur og forðast snertingu við augað.
- Nota ber einnota pappírsþurrkur. Verði því ekki viðkomið skal sá sýkti vera með eigið handklæði þar til tekist hefur að útvega pappírsþurrkur.
- Smitandi einstaklingar mega ekki að deila augnlyfjum, dropagjöfum, augnsnyrtivörum né öðru sem snertir augun með öðrum.
- Sjúklingum og heilbrigðisstarfsmönnum með hugsanlega sýkingu ber að forðast umgengni við aðra sjúklinga.
- Starfsmenn skulu þvo sér um hendur fyrir og eftir alla snertingu við hvern sjúkling. Nota ber hanska ef minnsti grunur er um smit og þurrka hendur vandlega með einnota pappírsþurrkum að loknum handþvotti.
- Margnota áhöld, sem notuð eru við augnskoðun, skal þvo vandlega og dauðhreinsa (með viðurkenndri aðferð) að notkun lokinni.
- Öllum augnlyfjum eða dropum, sem komist hafa í snertingu við augnlok eða slímhimnur, skal hent eftir notkun.
- Ef faraldurinn er viðvarandi þarf að herða enn á varúðarráðstöfunum, meðal annars með því að taka á móti hugsanlega sýktum sjúklingum í sérstökum móttökuherbergjum.
- Þrífa þarf vel allt umhverfi hins sýkta með vatni og sápu og sótthreinsa jafnframt með mildri klórlausn yfirborð sem mengast með vessum úr augum eða nefi.
- Við faraldra þarf að rekja smitleiðir til uppruna smitsins (t.d. menguð augnlyf eða skolvökva) og gera viðeigandi ráðstafanir til að hindra frekari útbreiðslu.
Síðast uppfært 23.11.2016