Skráning bólusetninga

Samkvæmt sóttvarnalögum er sóttvarnalæknir ábyrgur fyrir því að haldin sé miðlæg skrá um allar bólusetningar á Íslandi. Sérstaklega er þess getið að í skránni skuli koma fram:

  • Hver var bólusettur 
  • Hvaða bóluefni var gefið 
  • Hvenær það var gefið
  • Hvort aukaverkanir hafi hlotist af og 
  • Ástæðu ef bólusetningu var neitað. 

Sóttvarnalækni er skylt að gæta fyllsta trúnaðar um allar persónuupplýsingar sem fram koma í bólusetningaskránni eins og gildir um aðrar sjúkraskrár.

Notagildi miðlægrar bólusetningaskrár er einkum:

  • Nákvæmar upplýsingar fást um þátttöku í bólusetningum. 
  • Gott mat fæst á hættunni á að bólusetningasjúkdómar blossi upp hér á landi.
  • Auðvelt verður að finna einstaklinga sem eru óbólusettir og eiga á hættu að fá bólusetningasjúkdóma
  • Heilbrigðisstarfsmenn geta auðveldlega fengið upplýsingar á einum stað um allar fyrri bólusetningar einstaklinga.
  • Almenningur getur fengið upplýsingar um  fyrri bólusetningar sínar burtséð frá því hvar þær voru gerðar. 

Þann 1. mars 2007 voru undirritaðir samningar um bólusetningagrunn sóttvarnalæknis milli eMR hugbúnaðar hf. og sóttvarnalæknis,  en þeir voru gerðir í framhaldi af vel heppnuðu tilraunaverkefni um rafrænar sendingar bólusetningaupplýsinga sem lauk 2005.

Með þessum samningi verða eldri upplýsingar um bólusetningar landsmanna fluttar rafrænt inn í grunn sóttvarnalæknis auk þess sem upplýsingar um bólusetningar frá heilbrigðisstofnunum munu flytjast í grunninn jafnóðum og þær eru gerðar sem og upplýsingar um bólusetningar í skólum.

Heilbrigðisstarfsmenn um land allt sem nota Sögukerfið til skráningar heilsufarsupplýsinga munu jafnframt geta fengið upplýsingar úr grunninum um bólusetningar þeirra einstaklinga sem til þeirra leita.

Grunnurinn verður þannig í fyrstu tengdur öllum heilbrigðisstofnunum á landinu sem nota Sögu til gagnaskráningar, en önnur skráningarkerfi munu væntanlega geta tengst grunninum síðar. Fyllsta öryggis um meðferð persónuupplýsinga verður gætt.

 

Síðast uppfært 28.07.2021