Bólusetningar ferðamanna

Sjá stærri mynd

Fjölmargir smitsjúkdómar eru landlægir í suðlægum löndum, einkum í hitabeltinu. Rétt er að undirbúa ferðir á þau svæði vel, ráðfæra sig við lækni um þá heilsufarslegu hættu sem kann að vera fyrir hendi og hvaða bólusetningar eru nauðsynlegar þegar farið er á þessi landssvæði. Enda þótt bólusetningar geti verið mikilvægar ferðamönnum er ekki er síður mikilvægt að huga að ýmsum almennum atriðum í tengslum við ferðir til annarra landa.

Sjá nánar Ferðamenn - almennar ráðleggingar

Bólusetningar og nánari upplýsingar um þær er hægt að fá á Göngudeild sóttvarna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, heilsugæslustöðvum og öðrum aðilum sem fengið hafa til þess leyfi sóttvarnalæknis, s.s. Ferðavernd í Holtasmára 1, Kópavogi og Heilsuvernd í Urðarhvarfi 14, Kópavogi.

Bólusetningar 

Erfitt er að gefa einhlítar ráðleggingar um bólusetningu ferðamanna. Þeir þættir sem ráða því hvort og með hvaða bóluefni viðkomandi verði bólusettur eru:

  • Saga um fyrri bólusetningar
  • Til hvaða lands og landsvæðis er verið að fara
  • Hversu lengi mun viðkomandi dvelja í landinu og við hvaða aðstæður
  • Hversu algengir eru sjúkdómar sem bólusett er gegn á ferðasvæði viðkomandi

Sjúkdómar sem bólusett er gegn

Lifrarbólga A (hepatitis A) er algengur sjúkdómur víða um heim. Veiran smitast með mat, skólpmenguðu vatni eða af saurmenguðum höndum einstaklinga sem eru með sjúkdóminn eða að jafna sig af honum. Veikindin geta verið svæsin en bólusetningin er með þeim virkustu sem þekkjast. Einn skammtur nægir til að fá skammtímavörn, a.m.k. 10 dögum áður en komið er á svæði þar sem hætt er við smiti. Til að fá langtímavörn þarf tvo skammta af bóluefninu með 6–12 mánaða millibili. Ekki er þörf á örvunarskömmtum eftir að þessum tveimur skömmtum er lokið.

Taugaveiki (typhoid fever) er bakteríusýking orsökuð af Salmonella typhi og getur verið alvarleg. Hún smitast með matvælum og menguðu vatni. Þeir sem ferðast til landa Suður-Asíu eða um sveitahéruð hitabeltislanda ættu að láta bólusetja sig þótt bóluefnið veiti ekki fulla vörn.

Lifrarbólga B (hepatitis B) er víða algeng en fremur sjaldan þarf að bólusetja skammtímaferðalanga. Veiran smitast milli manna við nána snertingu (samfarir, til barns frá móður í fæðingu eða jafnvel ef smitaður einstaklingur bítur annan) eða við stunguóhöpp, blóðgjafir ef ekki er skimað fyrir veirunni o.þ.h. Tvo skammta með minnst 4 vikna millibili þarf fyrir ferð og þann þriðja 6–12 mánuðum eftir fyrsta skammtinn ef langtímavörn þarf. Ekki er þörf á örvunarskömmtum eftir að viðeigandi 3ja skammta röð er lokið.

Gulusótt eða mýgulusótt (Yellow Fever) er moskítóborin veirusýking sem valdið getur alvarlegum einkennum. Líkurnar á því að fá sjúkdóminn eru litlar en ráðlegt er að bólusetja sig gegn honum ef dvalist er í sveitum landa þar sem hann er landlægur í Afríku og Mið- og Suður-Ameríku. 

Sum Afríkuríki krefjast vottorðs um bólusetningu gegn gulusótt (yellow book/livre jeune) af öllum sem koma inn í viðkomandi lönd. Önnur lönd í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu krefjast vottorðs um bólusetningu af þeim sem koma frá landi þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Athugið að reglur um vottorð geta breyst ef upp kemur faraldur.

Einn skammtur af bóluefninu dugir fyrir lífstíð.

Þar sem bóluefnið inniheldur lifandi veiru er í sumum tilvikum óráðlegt að gefa bólusetninguna og þarf þá vottorð þar að lútandi.

Á Íslandi er hægt að fá bólusetningu þessa gerða á Göngudeild sóttvarna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, göngudeild smitsjúkdóma á Landspítala Fossvogi, á sumum heilsugæslustöðvum og hjá einkafyrirtækjum sem sinna ferðamannabólusetningum.

Heilahimnubólga af völdum meningókokka (meningococcal meningitis), sérlega af hjúpgerð A sem ekki er bólusett við á Íslandi, er algengt að gangi í faröldrum á savanna-svæðum í Vestur- og Mið-Afríku sunnan Sahara á þurrkatímanum, frá desember til júní ár hvert. Sjúkdómurinn er oft banvænn og sjúkdómsgangur getur verið mjög hraður. Til eru bóluefni við hjúpgerð A eingöngu í þessum löndum, en hjá þeim sem sinna ferðamannabólusetningum á Íslandi er hægt að fá bólusetningu við hjúpgerðum A, C, W135 og Y saman. Ástæða getur verið til endurbólusetningar eftir 1–5 ár ef farið er endurteknar ferðir á svæðið á þeim árstíma sem hættan er mest.

Hundaæði (rabies) er banvæn veirusýking. Sjúkdómurinn smitast við bit, klór eða sleikjur (yfir sár eða slímhúð) frá dýrum sem bera sjúkdóminn og eru oft augljóslega veik en ekki alltaf. Misjafnt er eftir löndum hvaða dýr eru líklegust til að smita menn, oftast hundar (Evrópa, Asía, Afríka) eða leðurblökur (Ameríka), en öll spendýr geta smitast og til er að fólk smitist af köttum, öpum eða ýmsum öðrum skógardýrum s.s. refum, kattardýrum eða þvottabjörnum. Fæstir ferðamenn þurfa bólusetningu við hundaæði en mjög mikilvægt er að bregðast á viðeigandi hátt við áverka sem dýr veldur (sjá Ferðamenn – almennar ráðleggingar, kafli um Dýrabit). Í stöku tilvikum getur verið ástæða til að fá bólusetningu fyrirfram sem einfaldar meðferðina ef bit kemur til, s.s. þegar ferð er farin gagngert til að vinna við merkingar skógardýra eða farið er mjög afskekkt þar sem sjúkdómur er fremur algengur og ekki er hægt að fá viðeigandi læknishjálp ef eitthvað kemur uppá, t.a.m. í Nepal.

Japönsk heilabólga (Japanese encephalitis). Japönsk heilabólga er moskítóborin veirusýking sem valdið getur alvarlegum einkennum. Líkurnar á því að fá sjúkdóminn eru litlar en ráðlegt er að bólusetja sig gegn honum ef dvalist er í sveitum landa þar sem hann er landlægur. Hann kemur fyrir víða um Asíu en er mjög misalgengur og gengur gjarnan í faröldrum, sums staðar árlega en oft óreglulega. Útbreiðsla sjúkdómsins er árstíðarbundin og fylgir algengi moskítófluga. Í Kína og Kóreu og á öðrum tempruðum svæðum er sjúkdómurinn algengastur að sumri til og á hausti. Á hitabeltissvæðum er áhættan tengd rigningartímanum sem getur verið breytilegur frá landi til lands. Hættan á því að smitast af japanskri heilabólgu er þó að öllum líkindum mjög lítil. Til er bóluefni gegn japanskri heilabólgu. Bólusetning er fyrst og fremst ráðlögð fyrir þá sem ætla að dvelja í sveitum þar sem sjúkdómurinn er landlægur í fjórar vikur eða lengur og þegar þekkt er að faraldur er í gangi.

Kólera (cholera) er smitsjúkdómur sem berst með menguðu vatni og matvælum og veldur svæsnum niðurgangi. Hættan á smitun er mjög lítil. Bóluefni sem notuð hafa verið gegn þessum sjúkdómi hafa verið gagnslítil. Kólerubólusetning er því að jafnaði ekki ráðlögð nema í undantekningartilvikum, s.s. fyrir þá sem hafa magasár og eru á meðferð sem vinnur gegn magasýru. Endurbætt bóluefni hafa komið fram en þau veita þó ekki vörn gegn öllum afbrigðum kóleru. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerir ekki kröfu um bólusetningu til ferðamanna.

Lömunarveiki (poliomyelitis), stífkrampi (tetanus) og barnaveiki (diphtheria). Flestir hér á landi hafa verið bólusettir gegn þessum sjúkdómum á barnsaldri og þurfa því ekki að öllu jöfnu að láta bólusetja sig á fullorðinsárum. Lömunarveiki og barnaveiki eru hins vegar ennþá landlægar víða um heim og viss hætta er á stífkrampa um allan heim ef óhreinindi komast í sár, s.s. við iðkun áhættuíþrótta. Því er ráðlagt að ferðamenn séu bólusettir gegn barnaveiki og lömunarveiki ef þeir hafa í hyggju að ferðast til landa þar sem þessir sjúkdómar fyrirfinnast og meira en 10 ár hafa liðið frá síðustu bólusetningu.

Berklar (tuberculosis) eru enn á ný vaxandi vandamál í þróunarlöndum og víða í Austur-Evrópu. Fæstir Íslendinga hafa verið bólusettir gegn berklum. Almennt er ekki mælt með að ferðamenn láti bólusetja sig við berklum, jafnvel þótt dvalið sé lengi á svæði þar sem berklar eru algengir, þar sem bóluefnið veitir ekki góða vörn. Börn undir 2ja ára aldri og jafnvel undir 5 ára aldri sem flytjast á svæði þar sem berklabólusetning er almenn ætti að bólusetja. Bóluefnið er ekki lengur flutt til Íslands og þarf því að leita eftir bólusetningunni annars staðar. Frekari upplýsingar um berklabólusetningu má fá hjá Göngudeild sóttvarna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Kannaðu þá hættu sem gæti ógnað heilsu þinni og hvaða bólusetningar eru nauðsynlegar þegar þú leggur land undir fót.

 

 

Síðast uppfært 27.04.2017