Bólusetningar barna

Sjá stærri mynd

Fyrirkomulag barnabólusetninga á Íslandi frá janúar 2020 (PDF) 

National Childhood Vaccination Programme as of January 2020 (PDF)

Ogólne szczepienia dzieci na Islandii od stycznia 2020 r (PDF)

Pangkalahatang pagbabakuna para sa mga bata sa Iceland mula Enero 2020 (PDF)

Þátttaka í almennum bólusetningum barna á Íslandi:

2018

2017

2016

2015

2014

2013

2012

Spurningar og svör um bólusetningar

  • Gegn hvaða sjúkdómum er bólusett á Íslandi?
   Barnaveiki (Diphtheria) Haemofilus influenzae sjúkdómur af gerð b (Hib) Hettusótt (Parotitis epidemica, mumps) HPV (Human Papilloma Virus) Kikhósti (Pertussis) Meningókokkar C Mislingar (Morbilli, measles) Mænusótt (Polio) Pneumókokkar Rauðir hundar (Rubella) Stífkrampi (Tetanus) .
  • Hvað er bólusetning?
   Bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlegan smitsjúkdóm. Bóluefnin eru ýmist unnin úr veikluðum veirum eða bakteríum eða þau innihalda efni sem finnast í þessum sýklum. Bóluefnin sjálf valda litlum einkennum en vekja upp mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að börnin veikist af sjúkdómnum sem bólusett er gegn. Bólusetningar draga nafn sitt af kúabólusetningunni sem breskur læknir, Edward Jenner, benti árið 1796 á að kæmi í veg fyrir bólusótt. Enginn smitsjúkdómur hafði leikið íslensku þjóðina eins grátt og bólusóttin, en hún gerði nánast út af við þjóðina á öldum áður. Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða að hefja bólusetningu gegn bólusótt með ákvörðun sem danska heilbrigðisstjórnin tók þegar árið 1802. Jenner benti á að hægt yrði að útrýma bólusótt úr heiminum með bólusetningum. Það tók þó hátt í 200 ár að ná því markmiði og hægt var að hætta bólusetningum gegn þessum alvarlega sjúkdómi á áttunda áratug tuttugustu aldar.
  • Til hvers er verið að bólusetja?
   Markmiðið með bólusetningum er að koma í veg fyrir alvarlega sjúkdóma, einkum hjá börnum. Bólusetningar hindra einnig farsóttir og draga úr hættulegum afleiðingum smitsjúkdóma. Í sumum tilfellum er mögulegt að útrýma sjúkdómum með öllu. Margir barnasjúkdómar, svo sem mislingar, barnaveiki, kikhósti og lömunarveiki, sjást afar sjaldan nú orðið. Ungabarnadauði vegna þessara sjúkdóma var þó algengur á 19. öldinni og framan af 20. öldinni. Reynsla margra Austur- Evrópuríkja sýnir að þessir sjúkdómar geta komið aftur ef slakað er á bólusetningum barna.
  • Hvaða gagnsemi er af bólusetningum?
   Gagnsemi bólusetningar er fólgin í þeirri vernd sem hún veitir barninu. Gagnsemin er líka fólgin í því að hvert og eitt bólusett barn smitar ekki önnur næm börn af þeim sjúkdómi sem það er verndað fyrir. Þannig eru bólusetningar einstakar aðgerðir sem eiga sér enga hliðstæðu í forvörnum sjúkdóma. Til þess að ná þessum árangri þurfa bólusetningar að vera almennar og ná til sem flestra barna. Íslendingar gættu sín ekki nægilega á þessu í upphafi 19. aldar þegar bólusett var gegn bólusótt. Því kom bólusóttin aftur árið 1839 í síðasta sinn en skaðinn varð minni en áður. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin fullyrðir að engar aðgerðir séu mönnum eins hagkvæmar og bólusetningar.
  • Getur verið ástæða til að bólusetja ekki barn?
   Það er sárasjaldan ástæða til að bólusetja ekki barn. Ef eitthvað af þessu á við þitt barn skalt þú ræða það við lækninn eða hjúkrunarfræðinginn í heilsugæslunni: Barnið er veikt af einhverri ástæðu eða er með hita (þá er venjulega beðið með bólusetninguna þangað til barninu er batnað). Barnið hefur fengið hliðarverkun eða aukaverkanir í kjölfar fyrri bólusetninga. Barnið hefur fengið alvarlega ofnæmissvörun eftir að hafa neytt eggja (þ.e. munnurinn og kokið hefur bólgnað, lost, erfiðleikar með öndun eða útbrot um allan líkamann). Barnið er að taka ákveðin lyf, einkum steralyf. Barnið er haldið alvarlegum langvinnum sjúkdómi, svo sem ónæmisgalla.
  • Þarf að hafa áhyggjur af afleiðingum bólusetninga? Hvað á að gera ef barnið fær hita?
   Fái barnið hita ráðleggja læknar og hjúkrunarfræðingar venjulega að því sé gefinn barnaskammtur af paracetamóli til að lækka hitann. Það er svo endurtekið 4-6 klukkustundum síðar gerist þess þörf. Ef hitinn varir lengur en í sólarhring eða honum fylgja önnur einkenni er rétt að ráðfæra sig við lækni.
  • Hvað um stungustaðinn?
   Stundum kemur roði eða bólga á stungustað. Þetta er eðlilegt og öll ummerki hverfa af sjálfu sér. Hafir þú áhyggjur af þessu skalt þú ræða það við hjúkrunarfræðing eða lækni á heilsugæslustöð.
  • Hvenær á að leita læknis?
   Hafir þú einhverjar áhyggjur skalt þú hafa samband við hjúkrunarfræðing eða lækni. Ef barnið fær háan hita, grætur óeðlilega eða fær krampa skalt þú hafa samband við lækni eins fljótt og auðið er.

Síðast uppfært 08.01.2020