Vægar aukaverkanir

 

Flestar bólusetningar geta valdið vægum aukaverkunum eins og hita, roða og þrota á stungustað, tímabundinni vanlíðan og niðurgangi.

Mjög náið er fylgst með öllum hugsanlegum aukaverkunum bólusetninga og hvort bóluefnin séu raunverulegur orsakavaldur. 

Við mat á bóluefnum þarf ætíð að meta afleiðingar þess sjúkdóms sem bólusett er gegn og aukaverkana bóluefnisins.

Sjá einnig: Aukaverkanir bólusetninga - með sérstöku tilliti til bóluefna gegn COVID-19

 

Hvað á að gera ef barnið fær hita?

Fái barnið hita ráðleggja læknar og hjúkrunarfræðingar venjulega að því sé gefinn barnaskammtur af paracetamóli til að lækka hitann. Það er svo endurtekið 4–6 klukkustundum síðar gerist þess þörf. Ef hitinn varir lengur en í sólarhring eða honum fylgja önnur einkenni er rétt að ráðfæra sig við lækni. 

 

Hvað um roða og þrota á stungustað?

Stundum kemur roði eða bólga á stungustað. Þetta er eðlilegt og öll ummerki hverfa af sjálfu sér. Hafir þú áhyggjur af þessu skalt þú ræða það við hjúkrunarfræðing eða lækni á heilsugæslustöð.

 

Hvenær á að leita læknis?

Hafir þú einhverjar áhyggjur skalt þú hafa samband við hjúkrunarfræðing eða lækni. Ef barnið fær háan hita, grætur óeðlilega eða fær krampa skalt þú hafa samband við lækni eins fljótt og auðið er.

 

Síðast uppfært 28.07.2021