Ofnæmi vegna bóluefnis gegn MMR

 

Vegna fyrirspurna um eggjaofnæmi sem bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (MMR) gæti valdið skal eftirfarandi tekið fram:

Hettusóttar- og mislingabóluefnið er framleitt í eggjum og því hefur verið talið að þau kynnu að valda alvarlegum ofnæmisviðbrögðum (anaphylaxis) hjá þeim sem hafa eggjaofnæmi. Reynslan sýnir að slík viðbrögð eru afar sjaldgæf. Húðpróf hafa ekki forspárgildi fyrir slíkum ofnæmisviðbrögðum við bólusetningu (J Pediatr 1992;120:878-81, N Engl J Med 1995;332;1262-66).

Niðurstöður rannsókna benda til þess að alvarleg ofnæmisviðbrögð (anaphylaxis) við samsettum bóluefnum (MMR) stafi ekki af ofnæmi fyrir eggjum. Frekar megi skýra þau með ofnæmi fyrir gelatini (J Allergy Infect Dis 1996;98:1058-61). Í MMR bóluefnum er neómýcin sem getur valdið alvarlegum ofnæmisviðbrögðum. Slíkt ofnæmi er afar sjaldgæft en ef það er þekkt skal ekki gefa viðkomandi bóluefnið.

Eggjaofnæmi er því ekki frábending fyrir bólusetningu með þrígildu bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum. Ávallt skal þó vera til staðar viðbúnaður til að bregðast við alvarlegum ofnæmisviðbrögðum gegn þessari bólusetningu eins og öllum bólusetningum.

 

Síðast uppfært 28.07.2021