MMR bólusetning veldur ekki einhverfu

Rannsóknir sýna að MMR bólusetning (gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt) veldur ekki einhverfu. 

Af og til berast fréttir af skaðlegum afleiðingum bólusetninga sem ekki hafa við rök að styðjast en eru til þess fallnar að draga úr tiltrú almennings á bólusetningum. Þegar þeir sjúkdómar hverfa úr samfélaginu sem bólusettt er gegn er hætt við að fólk gleymi þeim afleiðingum sem sjúkdómarnir höfðu. Athyglin beinist þá að hugsanlegum aukaverkunum sem bólusetningar kunna að hafa. Allar ábendingar um hugsanlegar skaðlegar afleiðingar bólusetninga eru teknar alvarlega og sérstaklega kannaðar.

Fræðilegar vangaveltur um að bólusetning gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (MMR) geti valdið heilkenni einhverfu (Wakefield AJ et al. Lancet 1998;351:637–41) hafa verið kannaðar. Langtímarannsókn sem hófst árið 1982 á börnum sem bólusett voru á aldrinum 14–18 mánaða og 6 ára í Finnlandi og tók til þriggja milljóna skammta miðað við árslok 1996 leiddi ekki í ljós eitt einasta tilfelli af heilkenni einhverfu sem hægt var að tengja bólusetningunum (Peltola, H et al. Lancet 1998;351:1327–8).

Önnur rannsókn frá Bretlandi sem tók til 498 tilfella af heilkenni einhverfu (261 með einhverfu, 166 með frábrigðilega einhverfu og 71 með Aspergers heilkenni) leiddi í ljós stöðuga aukningu á heilkenninu frá árinu 1979, þ.e. löngu áður en bólusetning með MMR hófst árið 1998. Ekki varð vart aukningar á heilkenni einhverfu sem rekja mátti til bólusetninganna eftir að þær hófust. Rannsóknir frá Danmörku (NEnglJMed 202 Nov 7;347 (19):1477–82) sem tók til allrar þjóðarinnar sýndi svo ekki varð um villst að MMR bólusetning veldur ekki einhverfu (Taylor, B et al. Lancet 1999;353:2026–9).

Mislingar, rauðir hundar og hettusótt eru sjúkdómar sem geta haft alvarlegar afleiðingar. Talið er að árið 1998 hafi 30 milljón manns fengið mislinga og 888 þús. þeirra látist. Um það bil 10% allra dauðsfalla í þróunarlöndum má rekja til afleiðinga mislinga. í Bandaríkjunum greindust 55 þús. tilfelli af mislingum á árabilinu 1989–1991 með 120 dauðsföllum.

Eitt af hverjum 8 þús. börnum sem fær mislinga fær alvarlega heilabólgu sem leiðir til dauða. Rauðir hundar eru alvarlegir fyrir fóstur og eru afleiðingar þess sjúkdóms enn í minnum manna hér á landi en hann gat valdið heyrnarleysi, heilaskemmdum, hjartaþelsbólgum og augnskemmdum. Hettusótt getur líka valdið alvarlegum fylgikvillum eins og heilahimnubólgu, eistnabólgu, briskirtilsbólgu og heyrnaleysi.

Það er því mikilvægt að vernda börnin gegn þessum sjúkdómum. Bólusetningar eru einstakar að því leyti að þær vernda ekki barnið eingöngu heldur annað fólk líka því bólusett barn smitar ekki aðra.

 

Síðast uppfært 28.07.2021