Aukaverkanir bólusetninga - með sérstöku tilliti til bóluefna gegn COVID-19

ENSKA/ENGLISH
PÓLSKA/POLSKI
SPÆNSKA/ESPANOL

Allar bólusetningar geta valdið óþægindum sem við köllum aukaverkanir. Flestar aukaverkanir eru í raun afleiðing virkjunar ónæmiskerfisins sem er tilgangur bólusetningarinnar og eru yfirleitt þær sömu óháð bóluefni:

  • Hiti >38°, hrollur, vöðva/bein-/liðverkir
  • Óþægindi á stungustað
  • Þreyta og slappleiki, höfuðverkur, magaóþægindi

Þessi einkenni koma oftast fram innan sólarhrings frá bólusetningu og vara sjaldan lengur en 1-2 sólarhringa nema óþægindi á stungustað og eitlabólgur. Einkenni koma gjarnan hraðar fram eftir endurtekna bólusetningu. Óþægindi á stungustað geta verið eymsli eingöngu en stundum kláði, roði eða bólga. Þau vara oft lengur en sólarhring, jafnvel upp undir viku. Þessi einkenni þarf ekki að tilkynna til heilsugæslu/stofnunar sem bólusetti eða Lyfjastofnunar nema þau séu talin óvenju alvarleg. Nota má venjulega skammta af parasetamóli og/eða íbúprófeni ef einstaklingur þolir slík lyf, til að draga úr óþægindum ef einhver þessara einkenna koma fram eftir bólusetninguna.

Eitlabólgur, oftast í holhönd þeim megin sem bóluefni var gefið í handlegg eru sjaldgæfari en einnig tilkomnar vegna virkjunar ónæmiskerfis. Ef eitlabólgur koma fram víðar en á því svæði sem næst er stungustað við bólusetningu er rétt að hafa samband við heilbrigðisþjónustu s.s. heilsugæslu sem metur hvort tilefni er til frekari skoðunar eða meðferðar og tilkynnir til Lyfjastofnunar.

Mögulegar aukaverkanir COVID-19 bóluefna önnur en virkjun ónæmiskerfis.

Algengi aukaverkana

Algengi aukaverkana bóluefna er flokkað eftir því hvort þær koma fram fram eftir meira en 10% bólusetninga með því bóluefni (mjög algengar aukaverkanir), 1-<10% (algengar aukaverkanir), 0,01%-<1% (sjaldgæfar aukaverkanir), <0,01% (mjög sjaldgæfar aukaverkanir) eða tíðni óþekkt, þá ekki komið fram nógu oft til að áætla tíðni, hér kallaðar fátíðar aukaverkanir ásamt þeim sem teljast mjög sjaldgæfar skv. ofangreindu. Athugið að ekki er alltaf staðfest að tengsl séu við bóluefni þótt fátíð aukaverkun sé tilgreind í fylgiseðli, en talið mögulegt eða jafnvel líklegt að tengist bólusetningu vegna tímasetningar framkomu einkenna.

Flestar algengar og mjög algengar aukaverkanir bólusetninga eru til komnar vegna tilætlaðra viðbragða ónæmiskerfisins við bóluefninu, s.s. hiti í kjölfar bólusetningar við lungnabólgubakteríu. 

Staðbundin viðbrögð

  • Bólga, roði og þroti, á íkomustað bóluefna koma fyrst og fremst til vegna sérstakra ónæmisglæða (e. adjuvant) sem kalla ónæmisfrumur (sem hér mættu kallast bólgufrumur) á stungustaðinn. Slíkar aukaverkanir eru í raun hluti af meginverkun bóluefnisins, þótt þær séu misáberandi og geti verið óþægilegar. Þegar sama bóluefni er gefið oftar en einu sinni er fremur algengt að aukaverkanir af þessu tagi komi fram hraðar og séu meira áberandi við seinni bólusetningar. Þetta á t.d. við um árlega inflúensubólusetningu, en er enn líklegra þegar styttra bil er á milli bólusetninga, s.s. þegar bólusett er við hundaæði þrisvar á einum mánuði, eða COVID-19 tvisvar á einum mánuði.

  • Eitlastækkanir, yfirleitt í holhönd þeim megin sem bólusett var í handlegg, eru líka algengari þegar stutt er á milli skammta sama bóluefnis og eru tilkomnar vegna ónæmisviðbragða við bóluefni. Í sumum tilvikum er þekkt að einstaklingar með sögu um sjúkdóminn sem bólusett er gegn fái meiri einkenni eftir bólusetningu.
    • Dæmi um þetta er ef einstaklingur með sögu um lungnabólgu fær bóluefni við lungnabólgubakteríu sem inniheldur sömu hjúpgerð og orsakaði sýkinguna. Ekki er enn ljóst hvort þetta á við um COVID-19 bólusetningar en slík saga er sjaldan frábending bólusetningar, frekar að bóluefni sem er af skornum skammti sé sparað með því að gefa það ekki einstaklingum með sögu um sjúkdóminn.

  • Fátíðar aukaverkanir eru margar til komnar vegna óvenjulegra viðbragða ónæmiskerfis einstaklings við bóluefninu. Sem dæmi má nefna ofnæmisviðbrögð vegna gelatíns í MMR bóluefninu og Guillain-Barré heilkenni eftir inflúensubólusetningu. Í sumum tilvikum, s.s. Guillain-Barré eftir inflúensubólusetningu, er um að ræða fylgikvilla sem geta líka komið fram við inflúensusjúkdóminn sjálfan. Raunar er Guillain-Barré mun algengara eftir inflúensusjúkdóm en eftir inflúensu-bólusetningu og er víðast hvar mælt sérstaklega með að einstaklingar með sögu um Guillain-Barré eftir inflúensubólusetningu eða –sjúkdóm fái árlega inflúensubólusetningu. Lesa má nánar um Guillain-Barré, inflúensu og inflúensubólusetningu hér.

  • Einstaklingar með þekkt eða grun um bráðaofnæmi fyrir polyethylene-glycol (PEG; Macrogol eða Movicol o.fl.) eða sögu um bráðaofnæmi af óþekktum orsökum ættu ekki að þiggja bólusetningu með Pfizer-BioNTech eða Moderna bóluefninu við COVID-19. Þegar önnur bóluefni við COVID-19 koma á markað hér er líklegt að breytingar verði á því hverjir geta þegið bólusetningu, þar sem umbúðir og hjálparefni geta verið mismunandi og aðrir ofnæmisvaldar því til frábendingar bólusetningu.

Nánar um aukaverkanir bóluefna.

Um aukaverkanir COVID bóluefna á vef Lyfjastofnunar.

 

Síðast uppfært 26.07.2021