Viðbrögð heilbrigðisyfirvalda

Hvað er verið að gera á Íslandi?

Viðbúnaður á Íslandi er samkvæmt viðbragðsáætlun sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

  • Frá 06.03.2020 var unnið samkvæmt neyðarstigi áætlunar um heimsfaraldur. Þann 25.05.2020 var almannavarnastigi breytt af neyðarstigi niður á hættustig.
  • Leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna hafa verið uppfærðar og gefnar út.
  • Leiðbeiningar til almennings og ferðamanna um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið ef grunur vaknar um COVID-19 hafa verið gefnar út.
  • Viðbragðsáætlanir fyrir alþjóðaflugvelli og hafnir og skip hafa verið gefnar út.
  • Heilbrigðisstofnanir hafa uppfært sínar viðbragðsáætlanir.
  • Ekki er ástæða til að setja á ferðabann til eða frá Íslandi en ferðamenn eru hvattir til að sleppa ónauðsynlegum ferðalögum til áhættusvæða COVID-19 og huga vel að sýkingavörnum á ferðalögum almennt.
  • Jafnhliða afléttingu á takmörkunum á samkomum og starfsemi hér á landi var byrjað að bjóða ferðamönnum upp á próf fyrir COVID-19 við komu til landsins. Neikvætt sýni veitir þá undanþágu frá sóttkví en allir eru beðnir að sýna varúð í 14 daga eftir komu því prófið er ekki óyggjandi.
  • Upplýsingum um COVID-19 og hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið vegna veikinda er dreift til ferðalanga með ýmsum leiðum. Ferðamenn eru sérstaklega hvattir til að hlaða niður og nota smáforritið Rakning C-19.
  • Einstaklingar sem greinast með COVID-19 fara í einangrun og tengdir aðilar þurfa að fara í sóttkví ef þeir hafa umgengist viðkomandi sjúkling síðustu 24–48 tímana áður en einkenni komu fram. Fyrirmæli um hverjir þurfa að fara í sóttkví koma frá yfirvöldum í hverju tilfelli fyrir sig.
  • Einstaklingar sem þurfa að fara í sóttkví eða einangrun en eiga ekki hér samastað eða ekki er fýsilegt að séu heima við í sóttkví eða einangrun geta fengið inni í sóttvarnahúsi á vegum yfirvalda í samráði við heilbrigðisyfirvöld á hverjum stað.

Spurningar og svör varðandi kórónaveiruna

Sjá stöðuskýrslur sem gefnar eru út á neyðarstigi.

Síðast uppfært 11.09.2020