Viðbrögð heilbrigðisyfirvalda

Hvað er verið að gera á Íslandi?

Viðbúnaður á Íslandi er samkvæmt viðbragðsáætlun sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

 • Frá 06.03.2020 eru unnið samkvæmt NEYÐARSTIGI áætlunar um heimsfaraldur.
 • Leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna hafa verið uppfærðar og gefnar út.
 • Leiðbeiningar til almennings og ferðamanna um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið ef grunur vaknar um COVID-19 hafa verið gefnar út.
 • Viðbragðsáætlanir fyrir alþjóðaflugvelli og í hafnir landsins hafa verið gefnar út.
 • Heilbrigðisstofnanir hafa uppfært sínar viðbragðsáætlanir.
 • Ekki er ástæða til að setja á ferðabann til eða frá Íslandi en ferðamenn eru hvattir til að sleppa ónauðsynlegum ferðalögum til áhrifasvæða COVID-19 og huga vel að sýkingavörnum á ferðalögum almennt.
 • Ekki er talin ástæða til að skima farþega við komu eða brottför á flugvöllum hér á landi, en upplýsingum um COVID-19 og hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið vegna veikinda er dreift til ferðalanga með ýmsum leiðum.
 • Íbúar landsins sem snúa heim frá áhættusvæðum og aðrir sem gefa sig fram sem nýkomna frá áhættusvæðum eru beðnir um að viðhafa sóttkví í 14 daga eftir að farið var frá áhættusvæði.
 • Einstaklingar sem greinast með COVID-19 fara í einangrun og tengdir aðilar þurfa að fara í sóttkví ef þeir hafa umgengist viðkomandi sjúkling síðustu 24–48 tímana áður en einkenni komu fram. Fyrirmæli um hverjir þurfa að fara í sóttkví koma frá yfirvöldum í hverju tilfelli fyrir sig.
 • Einstaklingar sem þurfa að fara í sóttkví eða einangrun en eiga ekki hér samastað eða ekki er fýsilegt að séu heima við í sóttkví eða einangrun geta fengið inni í sóttvarnahúsi á vegum yfirvalda í samráði við heilbrigðisyfirvöld á hverjum stað.
 • Íslensk stjórnvöld ráða Íslendingum frá ferðalögum og hvetja Íslendinga á ferðalagi erlendis til að íhuga að flýta heimför. Þetta er gert þar sem mörg erlend ríki hafa undanfarið gripið til þess að loka landamærum og skylda alla sem þangað koma í sóttkví. Ekki er hægt að útiloka að fleiri ríki muni grípa til svipaðra ráðstafana á næstunni. 

Spurningar og svör varðandi kórónaveiruna (06.03.2020)

Sjá stöðuskýrslur sem gefnar eru út eftir þörfum.

Síðast uppfært 16.03.2020