Fara beint í efnið

Kíghósti

Kíghósti er alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum einkum á fyrstu mánuðum ævinnar en hjá unglingum og fullorðnum þekkist sjúkdómurinn af langvarandi og þrálátum hósta en í raun er algengara að sýkingin valdi einfaldlega kvefeinkennum hjá þessum aldurshópum. Sýkingin stafar af bakteríu sem framleiðir eiturefni sem veldur slæmum hóstaköstum sem geta verið lífshættuleg hjá börnum á fyrstu 6 mánuðum ævinnar.

Faraldsfræði

Á árunum í kringum 1930–1940 létust þúsundir manna af völdum kíghósta en með tilkomu bóluefnis gegn sjúkdómnum hefur dregið mjög úr dánartíðni af völdum hans. Útbreiðsla sjúkdómsins hefur þó farið vaxandi síðustu 20 árin og telur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að á milli 20–40 milljónir tilfella komi upp árlega í heiminum og þá aðallega í þróunarlöndum.

Þrátt fyrir góða þátttöku í bólusetningu gegn kíghósta þá hafa komið upp faraldrar á 3–5 ára fresti í mörgum löndum hjá fullorðnum og eldri börnum. Ástæðan er sú að verndandi áhrif bólusetningarinnar eru mest fyrstu árin í kjölfar bólusetningar og þarf endurtekna örvunarskammta til að viðhalda verndinni. Bólusetning ver þar að auki ekki alfarið gegn smiti, heldur fyrst og fremst gegn alvarlegum veikindum.

Smitleiðir og meðgöngutími

Smit berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. með hósta og hnerra). Einstaklingar eru smitandi frá því einkenni koma fram og almennt í 2 vikur eftir að hósti byrjar. Meðgöngutími sjúkdómsins, það er sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast og þar til sjúkdómseinkenni koma fram, er yfirleitt um 2–3 vikur.

Einkenni sjúkdómsins

Einkennin eru í fyrstu vægt kvef, síðan vaxandi hósti, slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar. Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Önnur einkenni eru hnerri, nefrennsli og hiti. Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur. Ungum börnum á fyrstu 6 mánuðum ævinnar er sérlega hætt við alvarlegum afleiðingum sýkingarinnar sem geta verið öndunarstopp, krampar, lungnabólga, truflun á heilastarfsemi og dauði.

Greining

Sjúkdóminn má staðfesta með sýnatöku úr nefi/nefkoki og leit að erfðaefni bakteríunnar (PCR-próf). Taka skal sýni sem fyrst eftir upphaf veikinda. Hálsstrok er mun lakara sýni til að greina kíghósta en nefkoksstrok.

Ræktun bakteríunnar úr nefi/nefkoki og mótefnamælingar í blóði eru mögulegar rannsóknaraðferðir sem er lítið beitt núorðið.

Meðferð

Meðferð fer eftir hversu alvarlegur sjúkdómurinn er. Sýklalyf gera lítið gagn, nema mjög snemma á sjúkdómsferlinum, þá fyrst og fremst til að draga úr smiti bakteríunnar til annarra. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntöku og næringu. Lítil börn með kíghósta þurfa iðulega að dveljast langtímum á sjúkrahúsi.

Forvarnir

Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja ung börn því sjúkdómurinn er hættulegastur hjá börnum yngri en 6 mánaða. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í um 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Víða erlendis hefur verið mælt með reglubundinni endurbólusetningu fullorðinna en hér á landi er eingöngu mælt með reglubundinni endurbólusetningu heilbrigðisstarfsmanna.

Bólusetning barnshafandi kvenna dregur verulega úr sjúkdómi hjá börnum á fyrsta ári, sérstaklega börnum undir 3ja mánaða aldri sem hafa ekki fengið bólusetningu sjálf. Frá árinu 2019 hefur öllum barnshafandi konum verið boðin bólusetning gegn kíghósta í mæðravernd.

Stöðva dreifingu kíghósta

Frá því að einkenni byrja þurfa einstaklingar með kíghósta að draga eins og kostur er úr umgengni við ungbörn og í u.þ.b. tvær vikur eftir að hósti byrjar (ef bólusettir innan 10 ára) eða lengur (óbólusettir eða lengra en 10 ár frá síðasta skammti).

Til að draga úr hættu á dreifingu smits þarf hinn smitaði að halda sig sem mest til hlés í um 2-3 vikur og þar til líðan er greinilega batnandi. Fólk með kíghósta er almennt smitandi þegar einkenni koma fram og í 2 vikur eftir að hósti byrjar. Óbólusettir geta verið smitandi lengur.

  • Forðastu að vera nálægt ungum börnum (<1 árs) og barnshafandi konum meðan þú ert smitandi.

  • Forðastu fjölmennar samkomur í u.þ.b. tvær vikur og notaðu andlitsgrímu ef þú þarft að fara á staði þar sem aðrir eru meðan einkenni eru veruleg.

Ef barn í leikskóla eða skóla fær kíghósta er rétt að fjölskylda barnsins geri skólanum viðvart svo hægt sé að upplýsa aðstandendur annarra barna um kíghóstasmit í skólanum. Fjölskyldur í viðkvæmri stöðu vegna kíghósta geta þá fengið ráðleggingar hjá sínum lækni um aðgerðir til að draga úr smithættu innan fjölskyldunnar.

Hafðu samband við heilsugæsluna (netspjall, skilaboð á Heilsuveru eða hringja) ef þú hefur verið í námunda við einstakling með kíghósta og þú ert ekki bólusett/-ur.

Hvernig má komast hjá að börn fái kíghósta?

  • Bólusetning gegn kíghósta með tveimur skömmtum bóluefninu er örugg vörn.

  • Á Íslandi er kíghósta bólusetning gefin við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur.

Fylgikvillar kíghósta

Oftast batnar kíghósti án þess að valda verulegum vandamálum. Þau sem eru í mestri hættu á fá fylgikvilla eru börn sem eru yngri en 1 árs, sérstaklega yngri en 6 mánaða og óbólusett.

Minni hætta er á fylgikvillum hjá eldri börnum og fullorðnum og hjá bólusettum almennt.

Bólusetning barnshafandi kvenna dregur verulega úr sjúkdómi hjá börnum á fyrsta ári, sérstaklega börnum undir 3ja mánaða aldri sem hafa ekki fengið bólusetningu sjálf. Mælt er með bólusetningu gegn kíghósta á hverri meðgöngu.

Hjá börnum yngri en 6 mánaða og sérstaklega yngri en 3ja mánaða, sem ekki eru bólusett, er mikil hætta á alvarlegum veikindum með fylgikvillum eins og öndunarstoppi, krömpum, lungnabólgu, heilabólgu og jafnvel dauða.

Algengir fylgikvillar

Yngri en 1 árs:

  • Öndunarstopp

  • Lungnabólga

  • Krampar

Eldri börn og unglingar (í tengslum við hóstaköst):

  • Yfirlið

  • Rifbrot

Óalgengir fylgikvillar

Yngri en 1 árs:

  • Heilabólga

  • Dauði

Sjá nánar:

Tilkynningarskylda

Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af kíghósta með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis