Sýkingavarnir í heimsfaraldri

Þær leiðbeiningar sem hér eru birtar miðast við að heimsfaraldur inflúensu teljist vægur líkt og var í faraldrinum 2009.

Efnisyfirlit

Sýkingavarnir sýktra einstaklinga
Mikilvægt er að þeir sem eru með inflúensulík einkenni (t.d. hita, hósta, hnerra, hálsbólgu, beinverki):

 • Byrgi munninn með einnota pappírsþurrkum þegar hóstað er eða hnerrað. 
 • Þvoi sér oft um hendur eða beri á þær handspritt. 
 • Haldi a.m.k. eins metra fjarlægð frá öðrum, ef unnt er. 
 • Haldi kyrru fyrir heima í í tvo daga eftir að viðkomandi er orðinn hitalaus.

Sýkingavarnir á heimilum
Inflúensa smitast auðveldlega milli manna á heimilum. Hins vegar má draga úr líkum á smiti með eftirfarandi aðgerðum:

 • Takmarka samneyti við hinn veika eins og unnt er, t.d. með því að halda u.þ.b. eins metra fjarlægð frá honum eða vera ekki í sama herbergi.
 • Þvo hendur oft og vel eða hreinsa þær með handspritti.
 • Hafa góða loftræstingu (glugga opna), einkum í sameiginlegu rými, s.s. í eldhúsi og baðherbergi.
 • Þrífa vel með sápuvatni, einkum sameiginleg rými og staði sem allir á heimilinu snerta, t.d. borðplötur, handfang á kæliskáp, hurðarhúna o.s.frv.
 • Forðast beina snertingu við líkamsvessa (slím úr öndunarvegi, hægðir, uppköst, blóð). Ef snerting verður skal hreinsa hendurnar (með þvotti eða handspritti) strax á eftir.
 • Þeir sem annast ættingja eða vini með inflúensu í heimahúsi ættu að takmarka samskipti sín út á við eins og unnt er á meðan veikindin standa yfir.
 • Ef hinn veiki þarfnast aðstoðar læknis eða hjúkrunarfræðings skal hringja í heilsugæslu/læknavakt og fá ráðleggingar.
 • Ef sá/sú sem annast hinn veika finnur fyrir einkennum um inflúensu er ráðlagt að hafa strax samband við lækni, sem metur þörf á meðferð.
 • Ekki er mælt með fyrirbyggjandi notkun veirulyfja.

 Sýkingavarnir heilbrigðisstarfsmanna í heilsugæslu og heimahjúkrun

 • Leitast skal við að aðskilja á biðstofum fólk með inflúensulík einkenni frá öðrum og/eða láta sjúkling með einkenni bera hlífðargrímu (skurðstofugrímu). 
 • Við skoðun sjúklinga með inflúensulík einkenni er mælt með notkun hlífðargrímu (skurðstofugrímu) og einnota hanska. 
 • Að skoðun eða aðhlynningu lokinni skal notaðri hlífðargrímu og hönskum hent í ruslið og hreinsa hendurnar með þvotti og/eða handspritti. 
 • Um notkun annars hlífðarbúnaður (s.s. hlífðarsloppa eða hlífðargleraugna) gilda sömu reglur um grundvallarvarúð gegn sýkingum og við skoðun og aðhlynningu allra sjúklinga.

Sýkingavarnir starfsfólks sjúkrahúsa
Sjúklingar með inflúensu sem þurfa að leggjast á sjúkrahús skulu vera aðskildir frá öðrum sjúklingum sem ekki eru með inflúensu, þ.e. hafðir á einbýlisstofu eða í „hópeinangrun" á stærri stofu með öðrum sjúklingum með inflúensu.

Allt starfsfólk, sem hefur nána snertingu (innan eins metra nánd) við einstakling sem er með grunaða eða staðfesta inflúensu í heimsfaraldri:

 • Þvoi hendurnar eða beri á þær handspritt fyrir og eftir að hafa notað hlífðarbúnað og eftir snertingu við sjúkling. 
 • Noti hlífðargrímu (skurðstofugrímu eða FFP 2 grímur) þegar farið er inn í herbergi sjúklings. 
 • Noti einnota hanska við aðhlynningu sjúklingsins og við störf á stofu hans. 
 • Við barkaþræðingu, berkjuspeglun, gjöf innúðalyfja og annarra aðgerða sem hvetja til hósta hjá sjúklingi með inflúensu eykst smithætta. Við slíkar aðstæður er starfsfólki ráðlagt að nota FFP 3 hlífðargrímur. 
 • Samkvæmt reglum um grundvallarvarúð gegn sýkingum skal einnig nota hlífðarslopp eða plastsvuntu og hlífðargleraugu ef hætta er talin á að líkamsvessamengun (þvag, hægðir, blóð o.s.frv.) geti orðið, eins og við aðhlynningu allra sjúklinga, óháð hvort þeir eru taldir smitandi eða ekki.

Barnshafandi heilbrigðisstarfsmenn
Ef barnshafandi kona fær inflúensu eftir náið samneyti við sjúkling með staðfesta eða grunaða inflúensu getur verið ástæða til að meðhöndla hana með veirulyfjum (Tamiflu eða Relenza).


Hversu lengi geta inflúensuveirur lifað utan líkamans?
Við ákjósanleg skilyrði hefur komið í ljós að inflúensuveirur geta lifað í 24-48 klst. á hörðu ógegndræpu yfirborði, á taui og pappír í 8-12 klst. og í fimm mínútur á húð.


Sótthreinsun
Inflúensuveirur eru hjúpaðar og innihalda fitusameindir sem gera þær viðkvæmar fyrir utanaðkomandi áhrifum, s.s. þvotti með vatni og sápu og öllum hefðbundnum sótthreinsunarefnum.

 • Mælt er með að yfirborði hluta í umhverfi sjúklinga sé haldið hreinu með sápuvatni til að draga úr líkum á snertismiti. 
 • Sótthreinsun áhalda með hitun í 40°C í 15 mínútur; 80°C í 3 mín; 90°C í eina mínútu (t.d. í uppþvottavél, venjulegri þvottavél eða spoliopotti) upprætir veiruna. 
 • Sótthreinsiefni eins og etýlalkóhól (70%) eða klórblanda með 500 ppm styrk uppræta veiruna á árangursríkan hátt. Hins vegar gagnast þessi efni aðeins eftir að hlutir hafa fyrst verið þvegnir og þurrkaðir.

 

 

Síðast uppfært 24.10.2012
SearchChange Fontsize