Heimsfaraldur inflúensu

Sjá stærri mynd

Heimsfaraldur inflúensu verður þegar nýr stofn inflúensu A veiru, sem enginn hefur mótefni gegn, fer að berast manna á milli og sýkir stóran hluta mannkyns.

Á síðustu öld gengu þrír heimsfaraldrar inflúensu yfir. Fyrst kom spænska veikin 1918–1919, en talið er að allt að 50 milljónir manna hafi látist af völdum hennar, aðallega ungt fólk á aldrinum 20–40 ára. Á Íslandi létust um 500 manns.

Næstu heimsfaraldrar voru Asíuinflúensan 1957–1958 og Hong Konginflúensan 1968–1969, en manntjón í þessum faröldrum var mun minna en í spænsku veikinni.

Næstum 40 ár liðu  þar til heimsfaraldurinn 2009 reið yfir, en það er óvenju langur tími milli slíkra faraldra í sögulegu samhengi.

 

Heimsfaraldur inflúensu 2009
Heimsfaraldur inflúensu árið 2009 gerði fyrst vart við sig í Bandaríkjunum og Mexíkó upp úr miðjum mars árið 2009 en þá fór að bera á auknum fjölda fólks með inflúensulík einkenni. Við nánari athugun kom í ljós að sýkingin var af völdum nýrrar inflúensuveiru, A(H1N1)v (nú oftast nefnd A(H1N1)pdm 2009), sem breiddist hratt út og greindist um allan heim. 

Heimsfaraldursins varð fyrst vart hér á landi í maí þegar fyrsta tilfellið var staðfest en lítið var þó um einkenni inflúensu fram eftir sumri. Um miðjan júlí tók inflúensulíkum einkennum að fara hægt fjölgandi. Samtímis fór að bera á fleiri tilfellum inflúensu A(H1N1)v 2009 sem staðfest voru með sýnatöku. Þegar skoðuð er útbreiðsla einkenna af völdum þessarar veiru hér á landi er miðað við að upphaf faraldursins hérlendis sé 29. júní 2009.

Tilfellum fækkaði nokkuð í september, en í október náði inflúensan síðan mikilli útbreiðslu um allt land. Mesta aukning í útbreiðslu faraldursins varð um miðjan október, en þá greindust 1792 með einkenni inflúensu, sem var þrefaldur fjöldi tilfella miðað við vikuna á undan. Hámarki náði svo vikulegur fjöldi tilfella næstu viku á eftir, eða 1954 manns.

Í lok október og byrjun nóvember tók tilfellum að fækka töluvert, allt niður í 797 tilfelli á viku. Á tímabilinu 29. júní til 8. nóvember 2009 höfðu alls 8650 einstaklingar sótt til heilbrigðisþjónustunnar vegna inflúensulíkra einkenna, þar af 3942 karlar og 4618 konur. Um 170 einstaklingar voru á haustmánuðum lagðir inn á sjúkrahús vegna inflúensu, þar af þurfti að leggja 19 á gjörgæsludeild og einn sjúklingur lést.
Sjá nánar: Farsóttafréttir, 5. árg. 10-11. tölublað. Október – nóvember 2009

Veiran A(H1N1)v 2009/A(H1N1)pdm 2009
Heimsfaraldur inflúensu brýst út þegar nýr stofn inflúensuveiru A, sem ekki hefur áður valdið sýkingum í mönnum, fer að smitast á milli manna.

Veiran sem olli faraldrinum 2009, A(H1N1)pdm 2009, var með erfðaefni frá svína-, fugla- og mannainflúensuveirum af A stofni, en sú samsetning hafði aldrei sést áður. Við þær aðstæður veita fyrri sýkingar enga vörn með þeim afleiðingum að mun fleiri sýkjast en í árlegum inflúensufaraldri og sýkingarnar verða alvarlegri.

 

Veirulyf og bólusetningar í faraldrinum
Birgðir af veirulyfjum til notkunar í heimsfaraldri inflúensu voru til í landinu þegar heimsfaraldurinn braust út og var það liður í landsáætlun vegna heimsfaraldurs sem tók gildi árið áður.

Einnig var búið að tryggja kauprétt á bóluefni gegn svínainflúensu áður en heimsfaraldurinn braust út og strax í október 2009 hófst bólusetning heilbrigðisstarfsfólks og einstaklinga í öryggisstörfum.

Um miðjan desember höfðu tæplega 80.000 manns verið bólusettir og má telja líklegt að útbreidd bólusetning hér á landi hafi átt þátt í því að koma í veg fyrir enn meiri útbreiðslu faraldursins en raun varð á.

 

Viðbúnaður í tæka tíð
Heimsfaraldur inflúensu. Landsáætlun 2016 var gefin út og undirrituð í lok apríl 2016. Að gerð áætlunarinnar störfuðu um 100 manns, ekki aðeins úr heilbrigðisþjónustunni heldur alls staðar að úr atvinnulífinu með það að markmiði að skipuleggja heilbrigðisþjónustu og viðhalda nauðsynlegri starfsemi ef kæmi til heimsfaraldurs inflúensu.

Ríkisstjórn hafði í febrúar 2006 falið sóttvarnalækni og ríkislögreglustjóra að semja slíka viðbragðsáætlun fyrir allt landið. Þegar í desember 2007 var áætlunin æfð og tókst æfingin með ágætum.

Með gerð landsáætlunarinnar var heilbrigðisþjónustan í landinu betur undir það búin en ella að annast aukinn fjölda sjúkra.

 Meginmarkmið viðbúnaðaráætlunarinnar voru eftirfarandi:

  • Að hindra að faraldur bærist til landsins væri þess nokkur kostur.
  • Draga úr útbreiðslu faraldurs og lágmarka smithættu.
  • Styrkja nauðsynlega starfsemi og treysta innviði samfélagsins.
  • Upplýsa almenning og veita nauðsynlega fræðslu.
  • Lækna og líkna sjúkum.
  • Sinna skráningu og eftirliti á meðan faraldur gengur yfir.

Heilsugæslan gegndi mikilvægu hlutverki við fyrstu greiningu og meðferð ásamt umönnun sjúkra í heimahúsum. Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir voru búin undir móttöku fjölda inflúensusjúklinga um leið og annarri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu var haldið gangandi. 

 

 

Síðast uppfært 26.10.2012
SearchChange Fontsize