Fuglainflúensa

Sjá stærri mynd

Fuglainflúensa er sjúkdómur í fuglum sem orsakast af inflúensu-veirum af A-stofni, en þær eru náskyldar þeim inflúensu A-veirum sem valda inflúensu í mönnum.

Vatnafuglar eru náttúrulegir hýslar veiranna og berast þær um heiminn með farfuglum. Veirurnar geta borist í aðrar dýrategundir og mun fleiri veirustofnar hafa greinst í dýraríkinu en þeir sem valda sýkingum í mönnum.

Fuglainflúensa er misskæð 
Fuglarnir geta verið einkennalausir en einnig getur sýkingin leitt til dauða fuglanna á nokkrum klukkustundum. Fuglainflúensu er því skipt í væga fuglainflúensu (low pathogenic avian influenza - LPAI) og skæða fuglainflúensu (highly pathogenic avian influenza - HPAI).

Dæmi um skæða fuglainflúensuveiru er H5N1 sem breiðst hefur um heiminn á síðastliðnum áratug. Veiran veldur oftast litlum eða engum einkennum í vatnafuglum en hænsfuglar í alifuglabúum fá alvarlega sýkingu með háu dánarhlutfalli. Skæð fuglainflúensa leggst þannig misþungt á fuglategundir.

Faraldrar skæðrar fuglainflúensu í fuglum hafa komið upp víðsvegar um heiminn, en á síðastliðnum tíu til fimmtán árum hafa komið faraldrar af völdum inflúensuveiru A/H7N1 á Ítalíu, A/H7N7 í Hollandi, Belgíu og Þýskalandi og A/H7N3 í Kanada.

Sýking af völdum A/H5N1 greindist fyrst í fuglum árið 1996 í Kína, ári seinna fannst hún í Hong Kong, bæði í mönnum og fuglum. Næst varð hennar vart árið 2003 í Asíu og eftir það hefur hún náð mikilli útbreiðslu.

Uppfærðar upplýsingar um landssvæði þar sem fuglainflúensa hefur greinst í dýrum má finna á vef Alþjóðadýraheilbrigðismála-
stofnunarinnar
.

Hættan sem mönnum stafar af fuglainflúensuveiru A/H5N1 er tvenns konar:

  • Hætta á fuglainflúensusmiti beint frá fuglum.
  • Möguleikinn á að veiran taki breytingum og geti valdið heimsfaraldri inflúensu.


Fuglainflúensa í mönnum
Fuglainflúensa veldur í undantekningartilvikum sýkingu í mönnum.

Fyrsta alvarlega sýkingin af völdum fuglainflúensu A/H5N1 greindist í mönnum í Hong Kong árið 1997. Þá veiktust átján manns og af þeim dóu sex.

Árið 2003 gekk yfir skæð fuglainflúensa af völdum inflúensu A/H7N7 í alifuglabúum í Hollandi. Þá fengu 83 starfsmenn alifuglabúsins væg einkenni eftir smit, einn dýralæknir fékk skæða sýkingu og lést í kjölfar hennar.

Frá 2003 hefur inflúensa A/H5N1 í fuglum geisað víða um heiminn, með stöku sýkingum í mönnum. Milljónir manna hafa verið í snertingu við veika fugla, en samkvæmt upplýsingum á vef Alþjóðaheilbrigðis-
málastofnunarinnar höfðu yfir 600 manns greinst með staðfesta A/H5N1-sýkingu og nær 360 manns höfðu látist í í ágúst 2012. Yfirlit yfir tilfelli í mönnum má finna á vef Alþjóðaheilbrigðismála-stofnunarinnar.


Inflúensuveiran A/H5N1 og heimsfaraldur inflúensu
Hættan á meiri háttar stökkbreytingum í erfðaefni veirunnar eða samruna hennar við inflúensuveirur A sem valda árlegri inflúensu í mönnum er alltaf fyrir hendi.

Samruni veiru getur t.d. orðið við samtímis sýkingu með báðum veirunum í sama manni eða dýri.

  • Inflúensa A/H5N1 er skæð fuglainflúensuveira og er mjög smitandi fyrir fjölda fuglategunda, þar með talið hænsnfé sem haft er við híbýli manna.
  • Inflúensuveiran A/H5N1 er illa aðlöguð að mönnum og berst ekki auðveldlega milli manna. Einungis í undantekningartilfellum veldur hún sýkingum í mönnum.
  • Þeir fáu einstaklingar sem sýkjast fá mjög alvarleg einkenni og dánarhlutfallið er hátt.
  • Smit manna á milli með inflúensuveiru A/H5N1 hefur átt sér stað en er afar sjaldséð af því að inflúensuveiran er illa löguð að mönnum. Við núverandi aðstæður er sú smitleið ekki nægilega öflug til að valda heimsfaraldri inflúensu.

Hafa skal í huga að stöðugt eiga sér stað breytingar á A/H5N1 fuglainflúensuveirunni. Þrátt fyrir að engar meiri háttar breytingar hafi verið sjáanlegar á A/H5N1 veirunni síðastliðin 10–15 ár verður að gera ráð fyrir því að hún geti breyst og skyndilega tekið að berast auðveldlega manna á milli.

Þannig eru möguleikar á að fuglainflúensuveiran H5N1 valdi heimsfaraldri inflúensu þó ekkert sé vitað hvort það verður eða hvenær.

 

Síðast uppfært 29.10.2012
SearchChange Fontsize