Árleg inflúensa - Spurt og svarað

Hvað er árleg inflúensa og hver eru einkennin?

Árleg inflúensa er veirusýking sem veldur faraldri á hverju ári. Einkenni inflúensunnar sem koma yfirleitt snögglega, eru einkum hár hiti, skjálfti, höfuðverkur, beinverkir, þurr hósti, hálssærindi og nefrennsli. Algeng einkenni hjá börnum eru ógleði, uppköst og kviðverkir. Einkennin geta einnig verið væg en í undantekningartilfellum geta þau verið mjög alvarleg með svæsinni lungnabólgu, heilabólgu og einkenni frá fleiri líffærum.

Hverjir eru fylgikvillar inflúensunnar?

Hjá öldruðum er lungnabólga af völdum baktería algengasti fylgikvilli árlegrar inflúensu og algengasta dánarorsökin. Eyrnabólga er algengur fylgikvilli hjá börnum en einnig getur veiran valdið barkabólgu.

Hvenær kemur inflúensan?

Inflúensan kemur hingað á tímabilinu október til janúar en gera verður ráð fyrir að upphaf inflúensufaraldursins geti verið frá október til mars. Yfirleitt tekur 2-3 mánuði fyrir faraldurinn að ganga yfir.

Hvaða veira veldur inflúensu?

Veirurnar sem valda inflúensu eru RNA-veirur og tilheyra flokki veira sem kallast orthomyxoveirur. Þrjár aðaltegundir inflúensuveirunnar eru þekktar og kallast þær inflúensa A, B og C. Það eru inflúensu A og B veirurnar sem ganga í faröldrum og gefa dæmigerð inflúensueinkenni.

Oftast er það inflúensa A sem veldur árlegum inflúensufaraldri.Inflúensu A veiran er mjög breytileg, lítilsháttar breytingar verða stöðugt á erfðaefni hennar, sem leiða til minniháttar breytinga á mótefnavökum veirunnar, svokallað mótefnarek (antigenic drift). Þessar breytingar valda árlegum inflúensufaröldrum og þess vegna er nauðsynlegt að endurbólusetja árlega gegn inflúensunni.

Á yfirborði inflúensu A veirunnar eru tvö sykruprótín (glycoprotein), haemagglutinin (H) og neuraminidasi (N). Flokkun inflúensuveirunnar byggir á þessum sykruprótínum. Síðastliðin tvö ár hafa inflúensa A(H1N1)2009 sem olli heimsfaraldri árið 2009 og inflúensa A(H3N2) valdið faröldrum, auk inflúensu B veirustofna sem leggjast helst á ungt fólk.

Hversu smitandi er inflúensa?

Inflúensa er í meðallagi smitandi en talið er að hvert inflúensutilfelli smiti að meðaltali 1-2 móttækilega einstaklinga. Einstaklingur með inflúensu getur smitað sólarhring áður en einkenna verður vart, er mest smitandi við upphaf einkenna og getur dreift smiti í allt að 3-5 daga eftir að veikindi hefjast. Börn geta verið smitandi allt að viku eftir að einkenna verður vart.

Hvernig smitast inflúensan?


Helstu smitleiðir inflúensuveirunnar eru tvær, með höndum og með lofti sem dropa- eða úðasmit. Snerting handa við slímhúðir í munni, nefi eða augum skömmu eftir snertingu við smitandi fólk (t.d. við að heilsa með handabandi) ber smitið áfram. Einnig getur smit borist á sama hátt eftir snertingu handa við mengaða fleti í umhverfi inflúensusjúklinga. Dropa- og úðasmit verður við innöndum dropa eða úða sem berst í umhverfið með hósta og hnerra fólks með inflúensu. Hætta á smiti er mest hjá einstaklingum sem eru í innan eins metra fjarlægð frá smitandi inflúensusjúklingi.

Hvernig er hægt að draga úr líkum á smiti?

Ekki er nein örugg leið til að verjast smiti á því tímabili sem árleg inflúensa gengur yfir. Eftirfarandi atriði eru talin árangursrík til að rjúfa smitleiðir og draga úr líkum á að smit berist manna á milli:

Hylja skal vit með einnota bréfþurrkum þegar maður hóstar og hnerrar. Ef einnota þurrkur eru ekki fyrir hendi er ágætt að hylja andlitið með olnbogabótinni.

Tíður handþvottur er talinn vera árangursrík aðferð til að rjúfa smitleiðir. Handþvottur ver einnig fyrir öðru smiti en inflúensu.

Þeir sem fá einkenni inflúensu ættu að dvelja heima, inflúensan er mest smitandi við upphaf einkenna.

Árleg bólusetning gegn inflúensu dregur úr líkum á smiti.

Hversu langt líður frá smiti þar til einkennin birtast?

Meðgöngutíminn, þ.e. tími frá smiti þar til einkenni birtast eru oftast 2-3 dagar en getur þó verið allt frá 1-7 dagar.

Almenn meðferð - hvað er til ráða?

Veikum einstaklingum er ráðlagt að hvíla sig vel, halda kyrru fyrir heima við og drekka ríkulega. Mælt er með notkun hitalækkandi lyfja (t.d. parasetamóls) við háum hita. Forðast skal að gefa börnum asperín (magnýl) við inflúensu því það getur haft alvarlega aukaverkun í för með sér, svokallað Reye's heilkenni, sem leggst á miðtaugakerfi og lifur.

Hvernig er inflúensugreiningin gerð?

Þegar inflúensunnar er að vænta og grunur vaknar um fyrstu inflúensutilfelli vetrarins eru tekin nefkokssýni sem send eru til greiningar á rannsóknarstofuna í veirufræði við Landspítala. Þegar búið er að staðfesta komu inflúensunnar til landsins byggir greiningin í flestum tilfellum á klínísku mati læknis án greiningar á rannsóknarstofu.

Af hverju þarf að bólusetja á hverju ári?

Inflúensa A veiran er mjög breytileg, stöðugt verða lítilsháttar breytingar á erfðaefni hennar, sem leiðir til minniháttar breytinga á mótefnavökum veirunnar, svokallað mótefnarek (antigenic drift). Þessar breytingar valda árlegum inflúensufaröldrum og þess vegna er nauðsynlegt að bólusetja árlega gegn inflúensunni.

Áhættuhópar - Hverjir eiga að láta bólusetja sig?

Árleg bólusetning gegn inflúensunni er besta vörnin og gefur hún um 60-90% vörn hjá einstaklingum yngri en 65 ára (einnig börnum eldri en 6 mánaða) en heldur minni hjá eldri einstaklingum. Bólusetningin dregur einnig úr alvarlegum fylgikvillum sýkingarinnar og lækkar dánartíðni hjá þeim sem veikjast þrátt fyrir bólusetningu.

Eftirfarandi hópar eiga kost á að fá bóluefnið sér að kostnaðarlausu:

  • allir einstaklingar 60 ára og eldri, 
  • öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum, 
  • heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í þessum áhættuhópum, 
  • barnshafandi konur.

Er hægt að fá inflúensu þrátt fyrir bólusetningu?

Já, inflúensubólusetning gefur um 60-90% vörn gegn sýkingu, en verndandi áhrif bólusetningarinnar eru nokkuð breytileg milli ára. Þótt bólusetningin komi ekki fullkomlega í veg fyrir smit þá dregur hún úr alvarleika sýkingarinnar.

Er til veirulyf gegn inflúensu?

Á markaði eru fáanleg tvö lyf gegn inflúensu en þau eru zanamivir (Relenza®) og oseltamivir (Tamiflu®). Þessi lyf má nota hjá sjúklingum með staðfesta inflúensu en þau draga úr einkennum sjúkdómsins og stytta þann tíma sem veikindi standa yfir.

Til að lyfjameðferðin komi að notum verður hún að hefjast sem fyrst eftir að einkenna verður vart, eða innan 48 klukkutíma. Eftir þann tíma er gagnsemi lyfjanna vafasöm. Ákvörðun um hvort meðferð skuli gefin er einungis tekin í samráði við lækni og lyfin fást ekki án ávísunar.


Síðast uppfært 26.10.2012
SearchChange Fontsize