18.09.17

Inflúensan lætur á sér kræla

Samkvæmt upplýsingum frá sýkingavarnadeild og sýkla- og veirufræðideild Landspítala greindust tvö tilfelli af inflúensu hjá erlendum ferðamönnum í byrjun þessa mánaðar. Annað var af völdum inflúensuveiru A(H3) en hitt af völdum inflúensuveiru B.

Í vikunni sem leið greindust tvö tilfelli af inflúensu A(H3) hjá tveimur sjúklingum sem lágu saman í herbergi á Landspítala. Nú um helgina greindust tveir einstaklingar til viðbótar með inflúensu A(H3), annar þeirra var barn sem lagðist inn á Landspítala.

Enn er of snemmt að fullyrða að inflúensufaraldur sé hafinn. Mikilvægt er að fylgjast með fjölda einstaklinga sem greinast með inflúensulík einkenni. Enn sem komið er hefur ekki borið á aukningu slíkra tilfella í heilsugæslunni.

Nú þegar eru hafnar bólusetningar á sjúklingum og starfsmönnum Landspítala. Minnt er á að til eru inflúensulyf sem nota má til meðferðar ef þau eru tekin innan tveggja sólarhringa eftir að einkenni koma fram. Lyfin er einnig hægt að gefa viðkvæmum sjúklingum í fyrirbyggjandi skyni.

Sóttvarnalæknir