Áfengi og vímuefni, tóbak og rafrettur

Skólinn myndar ramma um daglegt starf og umhverfi nemenda og hefur þannig mótandi áhrif á viðhorf og gildi nemenda. Það er því mikilvægt að skólar móti sér stefnu og sýn í þessum málefnum. Skóli með virka stefnu í tóbaks-, áfengis- og vímuvörnum stuðlar að heilbrigðum lifnaðarháttum nemenda og eflir námsgetu þeirra. Ýmsir viðburðir tengdir skólastarfi gefa tilefni til þess að nota áfengi. Allar skólaskemmtanir eru á ábyrgð skólans, ekki einkaaðila eða nemendafélaga. Sem dæmi má nefna þemadaga eða tækifærisuppákomur til fjáröflunar. Á skemmtun á vegum skólans, þar sem starfsfólk skólans er ekki á staðnum, geta skapast aðstæður sem erfitt er að ráða við. Eins og mikinn fjölda gesta og þrýsting um áfengisneyslu á þá sem ekki hafa áhuga eða aldur til.

Staðreyndarblaðið „Hvað virkar í tóbaks-, áfengis og vímuforvörnum" er góður leiðarvísir um forvarnir í skólastarfi. Embætti landlæknis veitir faglegan stuðning við gerð fræðsluefnis og ráðgjöf í stefnumótun um áfengi og önnur vímuefni, tóbak og rafrettur fyrir heilsueflandi framhaldsskóla. Á vefsvæðinu heilsueflandi.is er farið nánar í viðmið um áfengi og önnur vímuefni, tóbak og rafrettur.