Tannheilsa - Heilsueflandi leikskóli

Sjá stærri mynd

Í leikskólum er mögulegt að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að betri tannheilsu barna en meira er um tannskemmdir meðal íslenskra barna en sambærilegra hópa í nágranna­löndunum.

Auka má tannheilsuvitund og bæta tannheilsu með því að kenna og koma á góðum venjum varðandi mataræði og munnhirðu bæði heima og í leikskólanum. Mikilvægt er að börnin læri að þeim líður vel með hreinar og heilbrigðar tennur.

Almennar ráðleggingar mæla með tannburstun að lágmarki tvisvar á dag,  eftir morgunverð og mjög vel áður en farið er að sofa á kvöldin. Foreldrar gegna lykilhlutverki í tannhirðu barna sinna en samvinna heimila og leikskóla getur stuðlað að enn betri tannheilsu barna og þar með að betri tannheilsu síðar á ævinni. 

Verkfærakistan

Meðal efnis á vef Embættis landlæknis:

Um tannhirðu ungbarna og barna á leikskólaaldri

Veggspjöld

 

Gjaldfrjálsar tannlækningar barna

Mælt er með að skrá barn hjá heimilistannlækni þegar það nær eins árs aldri.

Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga í tannlækniskostnaði barna

  • Samningur milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga tryggir börnum undir 18 ára aldri gjaldfrjálsar tannlækningar, fyrir utan 2500 kr. árlegt komugjald sem greitt er einu sinni á 12 mánaða fresti.

    Forsenda greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga er að barnið hafi heimilistannlækni og foreldrar bera ábyrgð á tímapöntun hjá tannlækni (listi yfir heimilistannlækna) og skráningunni í Réttindagátt Sjúkratrygginga. Tannlæknar geta einnig klárað skráninguna, þegar mætt er í bókaðan tíma.

    Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að panta tíma í fyrstu tannskoðun þegar barnið er tveggja ára.

    Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til nauðsynlegra tannlækninga.

    Nánari upplýsingar má finna á vef Sjúkratrygginga Íslands

Síðast uppfært 22.10.2018