Heilsueflandi samfélag

Hvað er Heilsueflandi samfélag?

Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku (Alþjóðaheilbrigðismála-
stofnunin, 1948). Stjórnvöld þurfa að velja hagkvæmar leiðir til að viðhalda og bæta heilsu og færni fólks á öllum æviskeiðum.

Birgir Jakobsson og Eiríkur Björn Björgvinsson Samfélag sem leggur áherslu á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun og á öllum sviðum er Heilsueflandi samfélag. Hér getur verið um að ræða sveitarfélag, samliggjandi sveitarfélög, landsfjórðunga, sýslur, hverfi eða önnur svæði sem finna til samkenndar og samstöðu.

Í heilsueflandi samfélagi er stöðug áhersla lögð á að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi íbúa, draga úr ójöfnuði, og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi.

Heilbrigði einstaklinga ákvarðast af samblandi af erfðum, umhverfisþáttum og hegðun sem hefur áhrif á heilsu (s.k. heilsuhegðun, sjá vefinn heilsuhegdun.is), en Heilsueflandi samfélag miðast við að bjóða upp á jöfn tækifæri til að móta heilbrigðan lífsstíl og gera holla valið að auðvelda valinu. Þar geta spilað saman efnahagslegir þættir, stjórnsýsla, öryggismál, félagslegt umhverfi, þjónusta í samfélagi einstaklings, fræðsla og hvatning til heilbrigðis.

Heilsuefling er ferli sem gerir fólki kleift að hafa aukin áhrif á heilsu sína og bæta hana (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, 1986) og er þar heildræn nálgun lykillinn að árangri. Enda getur umhverfi stuðlað að og gert einstaklingi kleift að velja sér lífsstíl sem er heilsueflandi.

Að gæta að áhrifum á heilsu og líðan í allri stefnumótun (e. Health in all policies) er lykilnálgun í þessu samhengi og miðast við að bæta heilsu og líðan allra íbúa í samfélaginu. Þar gegna allir geirar einhverju hlutverki í að stuðla að sem bestri heilsu, líðan og lífsgæðum.

 Dæmi um geira sem geta haft áhrif á heilsuhegðun fólks eru samgöngur og aðgengi að byggingum og þjónustu, heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta, forvarnir og öryggismál, aðbúnaður eldri borgara, skólasamfélagið, æskulýðs- og íþróttastarf, hönnun hverfa og bygginga og almenn skipulagsmál.

Samfélög geta valið sér ólíkar leiðir á vegferð sinni til heilsueflingar, en m.a. móta stjórnsýsla, einstaklingar og umhverfi samfélagið í sameiningu. Nálgunin getur mótast í mismunandi átt eftir áherslum, áhuga og markmiðum.

Hún byggist t.d. á að samfélög styðjist við opinberar ráðleggingar um mataræði þegar teknar eru ákvarðarnir er varða næringu íbúa, tryggi gott aðgengi að hollum mat og drykk í stofnunum samfélagsins í samræmi við ráðleggingar.

Einnig þarf að huga að skipulagi og hönnun sem stuðlar að hreyfingu (s.s. göngu- og hjólastígum, leikvöllum og grænum svæðum), tryggja gott framboð og aðgengi að skipulagðri hreyfingu fyrir allan aldur og bjóða upp á tækifæri til þess að þroskast í leik og starf.

Þá þarf líka að bæta hið manngerða og félagslega umhverfi íbúa, huga að áfengis-, tóbaks- og vímuefnaforvörnum, og tryggja almennt öruggt og heilsusamlegt umhverfi fyrir alla íbúa.
 

Af hverju Heilsueflandi samfélag?

Ef vel er staðið að innleiðingu Heilsueflandi samfélags má vænta þess að íbúar bæti heilsu sína og lífsgæði. Þar er stefnt að því að auka ánægju, hamingju og heilsuhreysti sem allra flestra íbúa með því að öðlast aukna heilsumeðvitund, heilsulæsi, afköst og árangur. Fyrir vikið ætti samfélagið í heild að verða enn eftirsóknarverðara, hagkvæmara, , öruggara, sjálfbærara og skilvirkara.

Hafa þarf þó í huga að góðir hlutir gerast hægt og það að stuðla að raunverulegum breytingum í samfélögum krefst bæði tíma, samstarfs og samstöðu sem allra flestra. Lykilatriði er því að gefa sér góðan tíma í undirbúning og umræður við lykilaðila í samfélaginu, stilla saman strengi og virkja krafta fjöldans.

Heilsueflandi samfélag byggist á lýðræðislegum grundvelli  og sameiginlegri ábyrgðar- og eignarhaldstilfinningu íbúa, en þá þarf að leggja upp með mælanleg markmið, virkja fólk til þátttöku og sýna fram á jákvæða þróun og breytingar í umhverfinu, bæði til skemmri og lengri tíma.

---

Embætti landlæknis ber ábyrgð á heilsueflingu og forvarnastarfi þar sem unnið er heildstætt með helstu áhrifaþætti heilbrigðis. Unnið er að áfengis-, tóbaks- og vímuvörnum, ráðleggingum um næringu, hreyfingu, geðrækt og tannvernd ásamt ofbeldis- og slysavörnum.

Svið innan embættisins, svið áhrifaþættir heilbrigðis, ber ábyrgð á að fylgjast með stöðu og þróun áhrifaþátta heilbrigðis, m.a. með könnuninni Heilsa og líðan Íslendinga, og að koma á samvinnu við sveitarfélög, heilsugæslu, menntastofnanir og aðra hagsmunaaðila til að stuðla að árangursríku lýðheilsustarfi þvert á geira og stig samfélagsins. Svið áhrifaþátta heilbrigðis vinnur með stjórn Lýðheilsusjóðs að faglegri úthlutun styrkja.

Síðast uppfært 27.04.2017