Heilsueflandi grunnskóli. Val og vitund

Val og vitund: Kennsluefni um áfengi og önnur ávana- og vímuefni fyrir nemendur í 8. – 10. bekk grunnskóla

Kennsluefnið samanstendur af sex kennslustundum fyrir nemendur í 8. – 10. bekk grunnskóla, tveimur fyrir hvert ár. Kennslustundirnar má hvort heldur fella inn í eina ákveðna námsgrein (t.d. lífsleikni) eða skipta á milli fleiri námsgreina samkvæmt samkomulagi og ákvörðun viðkomandi kennara. Með því eykst fjölbreytni í efnistökum og fleiri kennarar leggja forvörnum skólans lið. Einnig má benda á þann möguleika að nota kennsluefnið í forfallakennslu og/eða tilfallandi aukastundir sem kunna að gefast í skólastarfinu, t.d. í samstarfi við hjúkrunarfræðing skólans og 6H heilsunnar.

Í efnistökum (framkvæmd fræðslunnar) er annars vegar byggt á þeirri félagssálfræðilegu sýn að félagsleg návist annarra sé kjarninn í allri mannlegri breytni og samfélagslegri hegðun og hins vegar á því sem talið er að skili helst árangri í fræðslu um vímuefni, þ.e. að framkvæmd hennar (kennslan) felist einkum í umræðum og upplýsandi skoðanaskiptum nemenda og að nemendur séu virkir í fræðslunni. Áhersla er lögð á samræður á milli nemenda, sjálfsskoðun hvers og eins með því að taka afstöðu og gagnrýna hugsun.

Yfirlit kennslustunda

Kennslustund 1 (8. bekkur)
Áfengi og samfélag
Viðbrögð samfélagsins við áfengis- og vímuefnavanda, takmarkanir á aðgengi.

Kennslustund 2 (8. bekkur)
Vímuefni og ungt fólk
Skaðleg áhrif vímuefnaneyslu á heilbrigði fólks, einkum ungs fólks. Upphafsaldur áfengisneyslu, aldursmörk til áfengiskaupa og takmarkanir á aðgengi áfengis fyrir ungmenni.

Kennslustund 3 (9. bekkur)
Áfengi, efnaeiginleikar og vímuáhrif
Áhrif á miðtaugakerfið, áfengisvíma, áhrif á dómgreind og færni til ýmissa athafna. Fíknmyndun og arfgengi áfengisfíknar.

Kennslustund 4 (9. bekkur)
Tóbak, minnkandi reykingar og tóbaksfíkn
Upprifjun úr námsefninu Vertu reyklaus, frjáls fyrir 9. bekk (1. kennslustund). Mikill meirihluti fólks velur að reykja ekki; það er erfiðara en margir halda að hætta að reykja.

Kennslustund 5 (10. bekkur)
Kannabisefni, efnaeiginleikar og vímuáhrif
Skaðleg áhrif kannabisefna á heilbrigði fólks, einkum ungs fólks.

Kennslustund 6 (10. bekkur)
Val og ákvarðanir
Ástæður þess að einstaklingar ákveða að neyta ekki, eða neyta vímuefna. Hvað hefur áhrif á val hans og ákvörðun?