Heilsuefling á vinnustöðum

Heilsuefling á vinnustöðumHeilsuefling á vinnustöðum er sameiginlegt verkefni  vinnuveitenda, starfsmanna og samfélagsins alls og miðar að því að bæta heilsu og líðan vinnandi fólks.

Með heilsueflingu á vinnustöðum er stefnt að því að bæta vinnuskipulag og vinnuumhverfi, hvetja til virkrar þátttöku og stuðla að áframhaldandi þroska einstaklingsins. Heilsueflingu á vinnustöðum er ætlað að efla mannauð vinnustaða með bættri heilsu og líðan.

Heilsuefling á vinnustöðum er góð fjárfesting í mannauði. Ef vel er staðið að heilsueflingunni er hún líkleg til að skila ávinningi fyrir vinnustaði, starfsmenn og þjóðfélagið í heild.

Hagur fyrirtækisins getur falist í minni kostnaði vegna færri fjarvista, veikindadaga og slysa meðal starfsfólks, framleiðni eykst, starfsmannavelta minnkar og nýsköpun vex. Með heilsueflingu geta fyrirtæki einnig bætt ímynd sína og gert fyrirtækið að eftirsóknarverðari vinnustað.

Ávinningur starfsfólks er færri slys og sjúkdómar, bætt heilsa og aukin vellíðan og starfsánægja. Starfsgeta hvers og eins verður meiri og hann getur jafnvel átt lengri starfsævi. Vinnuveitendur sem hlúa að heilsu starfsfólks hafa ekki eingöngu jákvæð áhrif á starfsfólkið heldur geta þeir einnig haft áhrif á fjölskyldu starfsfólks og samfélagið í heild.

Í ljósi þessa hafa allir hag af heilsueflingu á vinnustöðum. Mikilvægt er að á sem flestum vinnustöðum sé heilsuefling sjálfsagður þáttur í stefnu vinnustaðarins og unnið sé markvisst að henni.

Hjá Embætti landlæknis er unnið að heilsueflingu starfsfólks í skóla í gegnum verkefni heilsueflandi leik-, grunn - og framhaldsskóla  en auk þess stendur til að birta nýja þekkingu og leiðbeiningar erlendis frá um heilsueflingu á vinnustöðum á heimasíðu embættisins.

Bæklingurinn „Ráðleggingar um heilsueflingu á vinnustöðum"

Síðast uppfært 19.07.2016