HPV bólusetning

HPV bólusetning

HPV-bólusetning gegn leghálskrabbameini

Heilbrigðisyfirvöld hófu HPV-bólusetningu gegn leghálskrabbameini haustið 2011 í samræmi við samþykkt Alþingis frá árinu áður. HPV-bóluseting er nú hluti af almennum bólusetningum barna og nær til stúlkna í 7. bekk. Bólusett er í skólum en í einstaka tilfellum á heilsu­gæslu­stöðvum.

HPV er skammstöfun fyrir Human Papilloma Virus, sem er algeng veira, einkum meðal ungs fólks, og smitast auðveldlega við kynmök. Talið er að um 80% þeirra sem stunda kynlíf smitist af veirunni einhvern tímann á ævinni, en veiran hefur margar undir­teg­undir sem geta valdið kyn­færa­sjúkdómum. Í flestum tilfellum hverfur veiran úr líkam­anum af sjálfu sér, en sumar tegundir hennar geta valdið viðvarandi forstigs­breyt­ingum í leghálsi sem með tímanum geta orðið að leghálskrabbameini.

HPV-bóluefnið er fyrirbyggjandi og því þarf að bólusetja stúlkur áður en þær hefja kynmök. Bóluefnið innheldur mótefnavaka gegn tveimur algengustu tegundum veirunnar sem valdið geta leghálskrabbameini. Talið er að bólusetningin gefi a.m.k. 70% vörn gegn sjúk­dómnum.

Þar sem ekki fæst full vörn með bólusetningunni er nauðsynlegt að stúlkurnar fari reglulega í krabbameinsleit síðar á ævinni. 

 

Um bólusetninguna

Bólusett er tvisvar sinnum með a.m.k. 6 mánaða millibili. Til að fá bestu vörnina er mikilvægt að fá báða skammtana innan árs.

HPV bólusetningAlgengustu aukaverkanir bólu­efnisins eru verkur, roði og bólga á stungustað sem hverfa fljótt, en eins og gildir um aðrar bólusetningar eru alvarlegar aukaverkanir mjög sjaldgæfar. Þess eru þó dæmi að það líði yfir unglinga þegar þeir eru bólusettir en það orsakast ekki af bóluefninu sjálfu.

Ef foreldrar eða forráðamenn stúlkna ákveða að þiggja ekki HPV-bólusetninguna er hægt að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing í viðkomandi skóla símleiðis eða með tölvupósti og láta vita um þá ákvörðun áður en bólusetningin fer fram í skólanum.

Frekari fróðleikur um HPV

Meira um HPV-veiruna og bólusetninguna

Algengar spurningar um kynfæravörtur

 

 

Síðast uppfært 01.11.2019