Tóbaksvarnir og ungt fólk

Á undanförnum árum hefur markvisst átak stjórnvalda til að draga úr reykingum borið árangur. Sá árangur hefur ekki síst verið áberandi meðal unglinga og ungs fólks. 

Ef skoðað er hlutfall nemenda í 10. bekk grunnskóla sem reykja daglega kemur í ljós að árið 2004 reyktu 12% nemenda daglega, en árið 2010 var hlutfallið komið niður í 7% samkvæmt niðurstöðum úr árlegrum könnunum Rannsókna og greiningar. Samkvæmt sömu mælingum er þetta hlutfall komið niður í 3% í ár

Niðurstöður könnunar á heilsu og líðan Íslendinga frá árinu 2007 benda til þess að þriðjungur Íslendinga hafi byrjað að reykja á aldrinum 15–19 ára. Jafnframt benda niðurstöðurnar til að ef fólk byrjar ekki að reykja fyrir 25 ára aldurinn þá eru mjög litlar líkur á að það byrji nokkru sinni.

Því miður er ekki sömu sögu að segja þegar kemur að neyslu munntóbaks meðal ungra karlmanna. Árið 2011 reyndist neysla munntóbaks meðal ungs fólks á aldrinum 16–23 ára vera umtalsverð hér á landi samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Embætti landlæknis á munntóbaksnotkun og algengast er að íslenskt neftóbak sé tekið í vörina.

Um 20% pilta á þessum aldri segjast nota tóbak í vörina daglega en notkunin mælist mjög lítil meðal stúlkna í sama aldurshópi.

Á vegum Embættis landlæknis er unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði tóbaksvarna. Mörg verkefnin miða að því að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji neyslu tóbaks. Einnig er unnið að því að draga úr neyslu tóbaks almennt og þeirri skaðsemi sem af henni hlýst.

Dæmi um nýleg verkefni hjá Embætti landlæknis sem snerta ungt fólk eru verkefnin Tóbakslausir framhaldsskólar og Tóbakslausir grunnskólar. Önnur verkefni hafa verið í gangi um árabil, s.s. Evrópuverkefnið Reyklaus bekkur sem hefur borið þann árangur að allt að 70% sjöundu og áttundu bekkja í grunnskólum landsins hafa tekið þátt í þeim á síðastliðnum 12 árum.

Ísland tók þátt í Evrópsku rannsóknarverkefni þar sem kannað var umfang og áhrif reykinga í kvikmyndum. Upplýsingar um verkefnið og niðurstöður rannsóknarinnar má nálgast á vefnum Smokefree Movies Europe.

 

Síðast uppfært 11.11.2015