Tóbaksvarnir og fullorðnir

Tóbaksnotkun er stærsta dánarorsökin sem koma má í veg fyrir í heiminum. Í ár munu meira en 7 milljónir manna deyja af völdum reykinga; vegna hjartaáfalls, heilablóðfalls, krabbameins, lungnasjúkdóma eða annarra sjúkdóma. Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar er talið að um 200 manns látist hér á landi af völdum reykinga á ári hverju.

Á Íslandi hefur orðið mikill árangur af tóbaksvarnastarfi, sem lýsir sér best í því að nú mælast daglegar reykingar fullorðinna hvað lægstar í Evrópu á Íslandi. Samkvæmt mælingum á árinu 2020 reyktu daglega 7,3% í aldurshópnum 18 ára og eldri en voru samkvæmt sömu mælingum 29,8% árið 1991.

Enn er þó hægt er að ná tíðni daglegra reykinga og annarri tóbaksnotkun meira niður með áframhaldandi markvissum forvörnum, heilsueflingu og stefnumótun og lagasetningu.

Tóbaksvarnir á heimsvísu
Rammasamningur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um tóbaksvarnir er umfangsmikið hjálpargagn í tóbaksvörnum á heimsvísu. Þetta er fyrsti rammasamingurinn sem náðst hefur á vegum WHO og er hann veigamikið framfaraspor í lýðheilsu. Meira en 170 ríki hafa undirritað hann og gerst þátttakendur að honum.

Samningurinn byggir á gagnreyndri þekkingu. Þar er ítrekuð sú skoðun að allt fólk eigi rétt á sem bestri heilsu og í honum eru gefin ný lagaleg ráð um samvinnu á sviði tóbaksvarna. Ísland undirritaði samninginn 16. júní 2003 og staðfesti hann 14. júní 2004.

  • Fyrsti Reyklausi dagurinn var haldinn á Íslandi 23. janúar árið 1979 og aftur árið 1982.
  • WHO stóð fyrir fyrsta Reyklausa deginum á heimsvísu þann 31. maí 1987 og hefur Reyklausi dagurinn verið haldinn árlega hér á landi síðan.Á undanförnum árum hefur verið unnið ýmiss konar fræðsluefni um skaðsemi reykinga og bent á ráð til að hætta.

Hér er bent á efni sem einkum hefur verið sniðið að konum, en á auðvitað einnig við alla, bæði um áhrif reykinga og svo um leiðir til að hætta tóbaksnotkun.

Viltu hætta að reykja? Reyksíminn hefur einnig umsjón með gagnvirku efni á vefnum Heilsuhegðun (www.heilsuhegdun.is)þar sem hægt er að skrá sig og fá stuðning. Þar er að finna mikið af alls konar fræðslu og prófum.