Tóbaksvarnir og fullorðnir

Tóbaksnotkun er stærsta dánarorsökin sem koma má í veg fyrir í heiminum. Í ár munu meira en 5 milljónir manna deyja af völdum reykinga; vegna hjartaáfalls, heilablóðfalls, krabbameins, lungnasjúkdóma eða annarra sjúkdóma. Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar er talið að um 200 manns látist hér á landi af völdum reykinga á ári hverju.

Á Íslandi hefur orðið mikill árangur af tóbaksvarnastarfi, sem lýsir sér best í því að nú mælast daglegar reykingar fullorðinna hvað lægstar í Evrópu á Íslandi. Samkvæmt mælingum á síðasta ári reyktu daglega 14,3% í aldurshópnum 15-89 ára en voru samkvæmt sömu mælingum 29,8% árið 1991

Enn er þó hægt er að ná tíðni daglegra reykinga og annarri tóbaksnotkun meira niður með áframhaldandi markvissum forvörnum, heilsueflingu og stefnumótun og lagasetningu.

Tóbaksvarnir á heimsvísu
Rammasamningur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um tóbaksvarnir er umfangsmikið hjálpargagn í tóbaksvörnum á heimsvísu. Þetta er fyrsti Rammasamingurinn sem náðst hefur á vegum WHO og er hann veigamikið framfaraspor í lýðheilsu. Meira en 170 ríki hafa undirritað hann og gerst þátttakendur að honum.

Samningurinn byggir á gagnreyndri þekkingu. Þar er ítrekuð sú skoðun að allt fólk eigi rétt á sem bestri heilsu og í honum eru gefin ný lagaleg ráð um samvinnu á sviði tóbaksvarna. Ísland undirritaði samninginn 16. júní 2003 og staðfesti hann 14. júní 2004.

Fyrsti Reyklausi dagurinn var haldinn á Íslandi 23. janúar árið 1979 og aftur árið 1982.

WHO stóð fyrir fyrsta Reyklausa deginum á heimsvísu þann 31. maí 1987 og hefur Reyklausi dagurinn verið haldinn árlega hér á landi síðan.Á undanförnum árum hefur verið unnið ýmiss konar fræðsluefni um skaðsemi reykinga og bent á ráð til að hætta.

Hér er bent á efni sem einkum hefur verið sniðið að konum, en á auðvitað einnig við alla, bæði um áhrif reykinga og svo um leiðir til að hætta tóbaksnotkun.

Fyrir þá sem vilja fá aðstoð við að hætta að reykja eða nota reyklaust tóbak bendum við á Reyksímann - Ráðgjöf í reykbindindi -s. 800 6030 

Reyksíminn er símaþjónustan sem þjónar öllu landinu og er veitt endurgjaldslaust. Hægt er að fá sent heim fræðsluefni og eftirfylgd er veitt í formi endurhringinga.

Viltu hætta að reykja? Reyksíminn hefur einnig umsjón með gagnvirku efni á vefnum Heilsuhegðun (www.heilsuhegdun.is)þar sem hægt er að skrá sig og fá stuðning. Þar er að finna mikið af alls konar fræðslu og prófum.