Tannheilsa og ungt fólk

Sjá stærri mynd

Dagleg munnhirða, hollar neysluvenjur og reglulegt tanneftirlit eru undirstaða heilbrigðra tanna sem endast eiga alla ævi. Góð tannheilsa bætir almenna líðan og því er eftirsóknarvert að hafa heilbrigðar tennur.

Á yfirborð tanna sest skán sem inniheldur bakteríur og matarleifar og getur orsakað tannskemmdir og bólgur í tannholdi ef hún er ekki hreinsuð burt. Því er nauðsynlegt að bursta tennurnar að lágmarki tvisvar á dag, í tvær mínútur í senn, og nota tannkrem með ráðlögðum flúorstyrk.

Flúor herðir glerung tanna og getur læknað tannskemmd á byrjunarstigi. Áhrif flúors vara lengur ef munnurinn er ekki skolaður eftir tannburstun, það nægir að skyrpa. Einnig er mælt með reglulegri flúorskolun tanna með 0,2% NaF munnskoli.

Ráðlagt magn og styrkur af flúortannkremi/flúormunnskoli
fyrir unglinga og ungt fólk:

  • 1 cm af flúortannkremi (1350 – 1500 ppm F)
  • 10 ml af 0,2% NaF munnskoli, einu sinni í viku.

Ef sífellt er sopið á gos-, íþrótta-, orku- eða ávaxtadrykkjum yfir daginn helst umhverfi tannanna súrt, glerungurinn leystist upp og hætta skapast á glerungseyðingu. Það sem veldur glerungseyðingu er fosfórsýra, sem er t.d. að finna í kóladrykkjum, og sítrónusýra, sem er t.d. í ávaxtasafa, appelsíni og sumum vatnsdrykkjum. Um er að ræða mjög kröftugar sýrur sem fletta glerungnum af tönnunum þannig að ysta lag glerungsins þynnist og eyðist.

Glerungur sem hefur eyðst myndast ekki aftur. Tennurnar verða viðkvæmar fyrir kulda og meiri hætta er á tannskemmdum.

Góð ráð gegn glerungseyðingu

  • Drekka vatn
  • Drekka sjaldan gos-, íþrótta-, orku- eða ávaxtadrykk og í litlu magni
  • Bíða í 30 mínútur með að bursta tennur eftir neyslu gos-, íþrótta-, orku- eða ávaxtadrykkja
  • Nota tannbursta með mjúkum hárum, flúortannkrem, flúorskol og tannþráð

Fræðslumyndböndum ýmsa þætti tannhirðu og tannverndar má nálgast ofar hér á síðunni til vinstri.


Erlend tungumál

Fræðslumyndbönd um tannhirðu og tannvernd fyrir þá sem ekki hafa íslensku að móðurmáli hafa verið þýdd á ensku, pólsku og rússnesku.


Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga í tannlækniskostnaði barna

Samningur milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga tryggir börnum undir 18 ára aldri gjaldfrjálsar tannlækningar, fyrir utan 2500 kr. árlegt komugjald sem greitt er einu sinni á 12 mánaða fresti.

Forsenda greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga er að barnið hafi heimilistannlækni og foreldrar bera ábyrgð á tímapöntun hjá tannlækni (listi yfir heimilistannlækna) og skráningunni í Réttindagátt Sjúkratrygginga. Tannlæknar geta einnig klárað skráninguna, þegar mætt er í bókaðan tíma.

Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til nauðsynlegra tannlækninga.

Nánari upplýsingar má finna á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Heilbrigðir einstaklingar sem hafa náð 18 ára aldri greiða fullt verð fyrir tannlækningar.

Sjá einnig upplýsingar um tannheilsu hér:

Síðast uppfært 19.11.2018