Tannvernd og ungbörn

Bakteríur sem valda tannskemmdum geta smitast frá móður til barns. Því er nauðsynlegt að huga vel að munnhirðu á meðgöngu, bursta tennurnar með flúortannkremi að lágmarki tvisvar á dag, tyggja xylitol-tyggjó nokkrum sinnum á dag og nota tannþráð daglega. Flúorskolun veitir meiri vörn gegn tannskemmdum og klórhexidín minnkar bólgur í tannholdi.

Foreldrar gegna lykilhlutverki í tannvernd barna sinna og verða að kunna réttu handtökin við tannhirðu barna.

Tanntöku fylgja ákveðin einkenni, svo sem sársauki og kláði í gómum en hár, viðvarandi hiti er aldrei af völdum tanntöku.

Huga þarf vel að tannhirðu hvort sem börn eru alin á brjóstamjólk eða þurrmjólk. Bursta þarf tennurnar tvisvar sinnum á dag með flúortannkremi (1000 – 1350 ppm) frá því fyrsta tönnin er sýnileg. Magn tannkrems samsvarar ¼ af nögl litla fingurs barns yngri en 3 ára.

Aldrei ætti að gefa barni hreina ávaxtasafa eða aðra sæta drykki í pela, hvorki á nóttu né degi, því að sykurinn skemmir tennurnar og ávaxtasýra eyðir tannglerungi. Sætindi má ekki setja á snuðið því að sykruð fæða, bæði matur og drykkur, skemmir tennur barnsins.

Allar barnatennurnar tuttugu hafa venjulega skilað sér fyrir þriggja ára aldur og þá er tímabært að hætta snuðnotkun.

Góð tannhirða er nauðsynleg og barnatennurnar verður að hreinsa þó ekki sé það alltaf auðvelt. Best er að yngstu börnin séu vel skorðuð í útafliggjandi stöðu, t.d. á skiptiborði eða í fangi foreldris. Notið lítið af flúortannkremi, eða magn sem svarar til ¼ af nögl litla fingurs barnsins, því að barnið kyngir því tannkremi sem fer upp í það.

Fræðslumyndband um tannhirðu yngstu barnanna. Í boxi ofar til vinstri hér á síðunni má nálgast myndband sem sýnir meðal annars handtökin við tannhirðu barna undir 3 ára aldri.

Erlend tungumál

Fræðsluefni og bæklingar um tannhirðu og tannvernd fyrir þá sem ekki hafa íslensku að móðurmáli hafa verið þýdd á erlend tungumál:


Reglulegt tanneftirlit

Það er nauðsynlegt að mæta reglulega í tanneftirlit og fyrsta heimsókn barns til tannlæknis á að vera ánægjuleg upplifun.

Mælt er með skráningu barns hjá heimilistannlækni í Réttindagátt við eins árs aldur. Öll 3 ára börn eiga nú rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum, fyrir utan 2.500 kr. árlegt komugjald.

Þann 1. janúar 2016 nær samningurinn til 6–18 ára barna.


Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga í tannlækniskostnaði barna

Tannlækningum er einungis sinnt á einkastofum tannlækna. Samningur milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga tryggir börnum undir 18 ára aldri gjaldfrjálsar tannlækningar, 2500 kr. árlegt komugjald. 

Forsenda greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga er að barnið hafi heimilistannlækni og foreldrar bera ábyrgð á skráningunni í Réttindagátt Sjúkratrygginga.
Nánari upplýsingar má finna á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Síðast uppfært 12.07.2016