Tannheilsa og fullorðnir

Sjá stærri mynd

Hreinar og heilar tennur stuðla að almennu heilbrigði. Tannheilsa karla er almennt lakari en kvenna, en hjá þeim fer almennt minni tími í munnhirðu.

Landsmenn sinna því almennt vel að bursta tennurnar kvölds og morgna með flúortannkremi en aðeins 12% karla og 24% kvenna á aldrinum 18–79 ára hreinsa á milli tannanna með tannþræði einu sinni eða oftar á dag. Ef viðhalda á góðri tannheilsu er nauðsynlegt að nota tannþráð að lágmarki einu sinni á dag.

Sykur skemmir tennur en mikil neysla gosdrykkja auk íþrótta- og orkudrykkja leysir upp glerung tannanna. Það sem veldur glerungseyðingu eru fosfórsýra, sem er t.d. að finna í kóladrykkjum, og sítrónusýra, sem er t.d. í ávaxtasafa, appelsíni og sumum vatnsdrykkjum. Um er að ræða mjög kröftugar sýrur sem fletta glerungnum af tönnunum þannig að ysta lag glerungsins þynnist og eyðist.

Glerungur sem hefur eyðst myndast ekki aftur. Tennurnar verða viðkvæmar fyrir kulda og meiri hætta er á tannskemmdum.

Góð ráð gegn glerungseyðingu:

  • Drekka vatn
  • Drekka sjaldan gos-, íþrótta-, orku- eða ávaxtadrykk og í litlu magni
  • Bíða í 30 mínútur með að bursta tennur eftir neyslu gos-, íþrótta-, orku- eða ávaxtadrykkja
  • Nota tannbursta með mjúkum hárum, flúortannkrem, flúorskol og tannþráð


Efst til hægri hér á síðunni má nálgast fræðslumyndbönd um tannhirðu og tannvernd.

Endurgreiðsla tannlækningakostnaðar
Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða hluta kostnaðar vegna tannlækninga 67 ára og eldri og fyrir lífeyrisþega. Fullorðnir, heilbrigðir einstaklingar, frá 18 ára til 67 ára, greiða fyrir tannlækningar sínar að fullu.

Tannlækningum er einungis sinnt á einkastofum tannlækna. Samningur milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga tryggir börnum undir 18 ára aldri gjaldfrjálsar tannlækningar, fyrir utan 2500 kr. árlegt komugjald sem greitt er einu sinni á 12 mánaða fresti.

Forsenda greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga er að barnið hafi heimilistannlækni og foreldrar bera ábyrgð á tímapöntun hjá tannlækni (listi yfir heimilistannlækna) og skráningunni í Réttindagátt Sjúkratrygginga. Tannlæknar geta einnig klárað skráninguna, þegar mætt er í bókaðan tíma. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að panta tíma í fyrstu tannskoðun þegar barnið er tveggja ára.

Nánari upplýsingar má finna á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Sjá einnig upplýsingar um tannheilsu hér:

Síðast uppfært 22.12.2017