Tannheilsa og eldra fólk

Sjá stærri mynd

Heilbrigði tanna skiptir miklu máli fyrir almenna heilsu og vellíðan fólks en rannsóknir benda til að eldra fólki geti verið hættara við t.d. hjartasjúkdómum og lungnabólgu ef munnurinn er illa hirtur. Ástæðan fyrir þessu er talin tengjast ákveðnum bakteríum í munnholi sem borist geta með blóðrásinni um líkamann.

Tannheilsa nú á dögum er almennt góð hjá Íslendingum og eldra fólk er nú með fleiri eigin tennur heldur en áður fyrr. Tæplega helmingur 67 ára og eldri Íslendinga eru með 20 eða fleiri eigin tennur og því nauðsynlegt að huga vel að tannheilsunni. Þeim fækkar jafnt og þétt sem nota þurfa gervitennur en tæplega fjórðungur 67 ára og eldri eru tannlausir með öllu.

Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði við almennar tannlækningar eldra fólks hefur verið aukin hjá þeim sem eru langsjúkir og dvelja á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum. Hjá öðrum 67 ára og eldri, 60-66 ára sem njóta óskerts ellilífeyris frá Tryggingastofnun og öryrkjum, miðast greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga vegna almennra tannlækninga við 50%.

Almennar tannlækningar ná yfir ákveðin fjölda röntgenmynda, skoðun, forvarnir, tannviðgerðir, rótfyllingar, tannholdsaðgerðir, úrdrátt tanna og hefðbundna gervitannasmíði. Einungis er veittur styrkur upp í kostnað við tannplanta og krónu og brúargerð. Frekari upplýsingar má nálgast á vef Sjúkratrygginga sjukra.is og einnig þarf að ganga frá skráningu heimilistannlæknis á sömu vefsíðu til að tryggja greiðsluþátttöku SÍ. Tannlæknar geta einnig séð um skráninguna þegar mætt er í bókaðan tíma. Þeir einstaklingar sem fóru til ákveðins tannlæknis eftir janúar 2017 eru nú þegar skráðir hjá viðkomandi tannlækni.

Sjá einnig upplýsingar um tannheilsu hér:

Síðast uppfært 04.02.2019