Tannvernd og börn 6-12 ára

Sjá stærri mynd

Góð tannheilsa bætir almenna líðan og því er eftirsóknarvert að hafa heilbrigðar tennur. Munnhirða og mataræði leggja grunninn að góðri tannheilsu auk þess sem aðgengi að tannlæknisþjónustu þarf að vera tryggt.

Tannskipti verða á aldrinum sex til tólf ára. Nýuppkomnar fullorðinstennur eru viðkvæmar fyrir tannskemmdum. Börn yngri en 10 ára þurfa aðstoð við tannburstun og sum þurfa aðstoð með tannþráðinn lengur.

Flest tíu ára börn eru fær um að bursta tennurnar sjálf. Bursta þarf tennurnar að lágmarki tvisvar á dag í tvær mínútur í senn og nota tannkrem með mildu bragði og ráðlögðum flúorstyrk.

Flúor herðir glerung tanna og getur læknað tannskemmd á byrjunarstigi. Áhrif flúors vara lengur ef munnurinn er ekki skolaður eftir tannburstun, það nægir að skyrpa. Þar sem tannskemmdir hjá grunnskólabörnum eru algengar er einnig mælt með reglulegri flúorskolun tanna með 0,2% NaF munnskoli, frá 6 ára aldri.

Ráðlagt magn og styrkur af flúortannkremi/flúormunnskoli:

  • 6 ára og eldri: 1 cm af flúortannkremi (1350 – 1500 ppm F)
  • 6–9 ára: 5ml af 0,2% NaF munnskoli, einu sinni í viku.
  • 10–16 ára: 10 ml af 0,2% NaF munnskoli, einu sinni í viku.

Skólaheilsugæslan sinnir heilbrigðisfræðslu um tennur og tannheilsu í samræmi við leiðbeiningar Embættis landlæknis um heilsuvernd skólabarna.

Hér til vinstri má nálgast fræðslumyndbönd sem sýna réttu handtökin við tannhirðu barna 6 – 12 ára.


Erlend tungumál

Fræðsluefni og bæklingar um tannhirðu og tannvernd fyrir þá sem ekki hafa íslensku að móðurmáli hafa verið þýdd á erlend tungumál:

Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga vegna tannlækninga barna

Sjúkratryggingar taka þátt í greiðslu vegna tannlækninga barna að 18 ára aldri. Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku er að börn  séu skráð hjá heimilistannlækni.

Sjá nánar á vef Sjúkratrygginga Íslands

 

Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að panta tíma í fyrstu tannskoðun þegar barnið er tveggja ára.

 

Sjá einnig upplýsingar um tannheilsu hér:

Síðast uppfært 15.06.2022