Svefn og hvíld

Starfsemi embættis landlæknis á sviði svefns skiptist í fræðslu, rannsóknir og heilsueflingarverkefni.

Markmið starfsins er að stuðla að betri svefni og vellíðan á öllum æviskeiðum meðal íslensku þjóðarinnar. Áhersla er lögð á að efla þekkingu almennings og stjórnvalda á mikilvægi svefns og þeim þáttum sem stuðla að góðum svefni fyrir vellíðan og heilsu. Lögð er áhersla á að efla samtalið um mikilvægi svefns og að gefa fólki leiðbeiningar um að skapa góða svefnvenjur.

Embættið vinnur að undirbúningi fyrir vitundarvakningu fyrir alla aldurshópa sem mun hefjast haustið 2020. Samkvæmt könnunum embættisins sofa rúmlega fjórðungur fullorðinna Íslendinga í 6 klukkutíma eða skemur en ráðlögð svefnlengd fullorðina er 7 til 9 klukkustundir. Einnig sýna tölur frá Rannsóknum og greiningu að tæplega helmingur ungmenna sofa 7 klukkutíma eða minna en ráðlögð svefnlengd fyrir þennan aldurshóp er 8 til 10 klukkustundir.  

Embættið býður almenningi upp á leiðir til að bæta svefn en einnig er boðið upp á námsefni sem skólar geta nýtt sér með nemendum í samstarfi við heimilin. Samstarf er við háskóla, rannsakendur, heilsugæslu, leik-, grunn- og framhaldsskóla, sveitarfélögin o.fl.