Fara beint í efnið

Svefn og hvíld - ráðleggingar embættis landlæknis

Starfsemi embættis landlæknis á sviði svefns skiptist í fræðslu, rannsóknir og heilsueflingarverkefni.

Markmið starfsins er að stuðla að betri svefni og vellíðan meðal Íslendinga á öllum æviskeiðum. Það er m.a. gert með því að leggja áherslu á að efla þekkingu meðal almennings og stjórnvalda á mikilvægi svefns og þeim þáttum sem stuðla að góðum svefni og svefnvenjum.

  • Góður svefn er nauðsynlegur til að geta tekist á við viðfangsefni dagsins og hefur jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, einbeitingu, námsgetu, er nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska barna og fleira.

  • Samkvæmt könnunum embættisins sefur rúmlega fjórðungur fullorðinna Íslendinga of lítið eða um 6 klukkustundir eða skemur á nóttu á meðan ráðlögð svefnlengd er 7 til 9 klst.

  • Niðurstöður rannsókna varðandi börn og ungmenni sýna að hluti þeirra sefur einnig of stutt.

  • Samkvæmt niðurstöðum frá Rannsóknum og greiningu sefur tæplega helmingur ungmenna í 8.-10. bekk 7 klst. eða minna á nóttu á meðan ráðlögð svefnlengd fyrir þann aldurshóp er 8-10 klst.

Vitundarvakning um mikilvægi svefns

Embættið stendur fyrir vitundarvakningu um mikilvægi svefns fyrir alla aldurshópa, með það að markmiði að stuðla að bættum svefni og svefnvenjum meðal Íslendinga.

Með vitundarvakningunni er lögð áhersla á að ná til Íslendinga á öllum æviskeiðum með margvíslegum aðgerðum og er unnið í góðu samstarfi við háskóla, rannsakendur, heilsugæslu, leik-, grunn- og framhaldsskóla, sveitarfélög og fleiri aðila. Embætti landlæknis stýrir vitundarvakningunni sem unnin er í samstarfi við Betri svefn, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Rannsóknir og greiningu, Landspítala háskólasjúkrahús, Svefnsetur Háskólans í Reykjavík, Reykjavíkurborg og Háskólann í Reykjavík.

Efni um svefn

Frekari upplýsingar um svefn



Þjónustuaðili

Embætti land­læknis

Tengt efni