Um sjálfsvíg

 Á heimsvísu eru sjálfsvíg meðal 20 algengustu dánarorsaka, en um 800.000 einstaklingar deyja árlega í sjálfsvígi. Á síðastliðnum áratug hefur árlegur fjöldi sjálfsvíga á Íslandi verið á bilinu 27-49, eða að meðaltali 39 á ári. Sjá nánar tölfræði.

Eftir áralangar rannsóknir og forvarnarstarf þá komumst við nær því að skilja betur áhættuþætti sjálfsvíga. Það sem gerir forvarnarstarf sjálfsvíga hins vegar flókið er að áhættuþættirnir eru margir og er um að ræða samspil líkamlegra, umhverfis- og félagslegra þátta. Bakgrunnur og orsakaferli á bak við hvert sjálfsvíg er mismunandi rétt eins og saga hvers einstaklings er einstök á sinn hátt. Þar geta spilað inn í félagslegar aðstæður, skyndileg áföll, missir eða langvarandi streita, persónuleikaþættir sem kunna að einkennast af reiði og hvatvísi, óhófleg áfengis- og vímuefnaneysla, þunglyndi og/eða mikill kvíði og vanlíðan. Sjálfsvíg eru algengari meðal karla en kvenna, á meðan tíðni sjálfsvígstilrauna er hærri meðal kvenna og yngri aldurshópa. Sjálfsskaði og sjálfsvígstilraun er hins vegar þekktur áhættuþáttur sjálfsvíga, sem ýtir undir mikilvægi þess að einstaklingar fái góðan stuðning, eftirfylgd og viðeigandi meðferð í kjölfar sjálfsvígstilraunar.

Hvernig líður þér? 


Það er hjálp til staðar og það er alltaf von

Það er mikilvægt að grípa einstaklinga sem líður illa snemma og beina þeim á fyrsta skrefið í hjálpinni. Ef sjálfsvígshugsanir gera vart við sig þá er gott að muna að það er hjálp til staðar og það er alltaf von. Hér má finna ráðleggingar til þeirra sem gætu fundist eins og lífið sé ekki þess virði að lifa (einnig á ensku og pólsku).

Það er í lagi að tala um sjálfsvígshugsanir og það er alltaf hægt að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall 1717.is. Einnig er hægt að hafa samband við Píetasímann 552-2218 og/eða tala við hjúkrunarfræðing á netspjalli heilsuvera.is. Nánari upplýsingar um þessi úrræði og aðstoð vegna sjálfsvígshugsana má finna í þessu myndbandi.

Félagslegur stuðningur frá nánasta umhverfi einstaklings getur skipt sköpum í sjálfsvígsforvörnum. Sem fjölskyldumeðlimur, vinur, nágranni eða samstarfsfélagi getum við öll haft áhrif með því að staldra við og fylgjast með líðan okkar og líðan fólksins í kringum okkur. Ef áhyggjur eru til staðar um það að einhver sé með sjálfsvígshugsanir er gott að vita að það er í lagi að spyrja viðkomandi hreint út hvort hann sé að íhuga sjálfsvíg. Það að spyrja um sjálfsvígshugsanir eykur ekki líkurnar á að viðkomandi taki líf sitt. Það getur hjálpað einstaklingi í vanlíðan að finna að einhver er til staðar til að hlusta og sýna skilning.

Fyrir aðstandendur er þó einnig mikilvægt að muna að það ber enginn ábyrgð á lífi annarra og það getur verið erfitt að hafa áhyggjur af líðan ástvina vegna sjálfsvígshugsana eða í kjölfar sjálfsvígstilraunar. Til að fá frekari ráðgjöf og ef áhyggjur hafa áhrif á eigin líðan er um að gera að leita aðstoðar hjá fagaðilum, heilsugæslunni, 1717 eða Píeta. Hér má finna ráðleggingar fyrir aðstandendur þeirra sem gætu verið að íhuga sjálfsvíg (einnig á ensku og pólsku).