Sjálfsvígsforvarnir

 Starfsemi embætti landlæknis á sviði sjálfsvígsforvarna felur í sér að fylgja eftir aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum, sem samþykkt var af heilbrigðisráðherra 2018.

Aðgerðaráætlunin telur yfir 50 aðgerðir í 6 liðum og nær til almennra og samfélagslegra aðgerða, eins og að efla uppeldisskilyrði barna og geðrækt í skólastarfi, og sértækari aðgerða sem til dæmis beinast að sérstökum áhættuhópum, eða takmörkun aðgengis að hættulegum efnum og aðstæðum.

Markmiðið er að vinna að forvarnarstarfi sem tekur mið af æviskeiðinu í heild og byggir á gagnreyndum aðferðum, fyrirliggjandi vinnu á sviði heilbrigðis, mennta- og félagsmála hér á landi, með reynslu nágrannaþjóða af árangursríkum sjálfsvígsforvörnum til hliðsjónar. Því vinnur embættið í samstarfi við fjölmarga innlenda og erlenda sérfræðinga og heilbrigðisstofnanir að eftirfylgd á aðgeðum áætlunarinnar og miðlun þekkingar á sviði sjálfsvígsforvarna.