Ofbeldis- og slysavarnir og ungbörn

Á meðgöngu

Mikilvægt er að byrja að huga að öryggi barnsins strax á meðgöngu og felst það fyrst og fremst í því að velja réttan búnað fyrir barnið. Gerðar eru miklar kröfur til búnaðar fyrir börn svo að hann geti ekki valdið slysi á barninu. Það er því mikilvægt þegar nýr búnaður er keyptur að lesa vel leiðbeiningar um notkun hans. Ef búnaðurinn er ósamsettur t.d. rimlarúm er mikilvægt að fylgja ávallt leiðbeiningum um rétta samsetningu hans. Mörg dæmi er um slys á börnum hér á landi vegna búnaðar og má rekja flest slys til þess að hann var ranglega settur saman en ekki að hann væri gallaður. 

Oft gengur gamall búnaður á milli kynslóða en það sem fólk verður að átta sig á að þessi búnaður uppfyllir oft ekki nýjustu öryggiskröfur og er því því oft á tíðum hættulegur. Hér eru nokkrar ábendingar um öryggi búnaðar.


Nýr búnaður

 • Búnaður fyrir börn á að vera framleiddur í samræmi við evrópska staðla sem gilda hér á landi.
 • Fylgdu nákvæmlega leiðbeiningum um samsetningu á búnaðnum, notkun hans og viðhald.
 • Röng notkun eða lélegt viðhald getur orsakað slys.

 

Notaður búnaður

 • Þegar notaður búnaður er fenginn að láni eða keyptur þarf að kanna vel að hann sé heill.
 • Varasamt er að kaupa óséðan búnað.
 • Ef búnaðurinn hefur verið tekinn í sundur verða leiðbeiningar um samsetningu hans að fylgja.
 • Ef leiðbeiningar hafa glatast er ekki öruggt að nota búnaðinn.
 • Fylgdu nákvæmlega leiðbeiningum um notkun hans og viðhald.
 • Röng notkun eða lélegt viðhald getur orsakað slys. 

Nánar um öryggi mismunandi búnaðar fyrir börn má lesa á heilsuvefnum 6 h heilsunnar.

Börn 0-2 ára

Flest slys hjá börnum á þessum aldri verða inni á heimilinu. Börn hafa ekki þroska eða getu til að forðast slys eins og fullorðnir fyrr en eftir 12 ára aldur.

Helstu orsakir slysa hjá börnum á þessum aldrei eru fall og það er því mikilvægt að skilja barn aldrei eftir eftirlitslaust á skiptiborði eða öðrum húsbúnaði eitt augnablik. Mikilvægt er að nota beisli í barnavagninum frá fyrsta degi. Áður en barnið fer að kanna umhverfi sitt á heimilinu er mikilvægt að fara yfir heimilið samkvæmt gátlista.

 

Fall

 • Víkið ekki frá barni eitt augnablik, því það getur spyrnt sér ofan af skiptiborði eða öðrum húsbúnaði.
 • Barn í barnabílstól eða ömmustól/taustól getur mjakað sér fram af borði eða öðrum húsbúnaði.
 • Þegar farið er um stiga með barn í fanginu skal alltaf halda í handrið og stiginn vera auður. Gætið þess að vera í stöðugum skóm.
 • Öryggishlið ættu að vera bæði við efra og neðra stigaop. Mikilvægt er að setja hliðin upp áður en barnið fer á kreik.

 

Brunaslys

 • Drekkið aldrei heita drykki með barn í fanginu.
 • Hitið hvorki drykki né mat fyrir börn í örbylgjuofni. Matvæli hitna ójafnt í örbylgjuofni.
 • Komið barninu fyrir á öruggum stað meðan verið er að elda. Hafið það hvorki í fanginu né í magapoka.
 • Ekki hafa rúm barnsins við miðstöðvarofn, litlar fætur geta rekið sig í ofninn.
 • Hitastig baðvatns á að vera 37 °C. Kannið hitastigið áður en barnið er sett ofan í það.
 • Verjið barnið fyrir sólinni, t.d. með léttum fatnaði sem hylur mikinn hluta líkamans og hatti sem skyggir á andlit þess og háls. Notið sólarvörn sérstaklega ætlaða ungum börnum. Gætið þess að börn séu ekki útsett fyrir mikilli sól nema örstutta stund í einu.

 

Köfnun

 • Notið léttar sængur sem henta stærð barnsins og sleppið því að nota kodda á fyrsta aldursári.
 • Leggið barnið á bakið í vögguna eða rúmið.
 • Látið barnið sofa í eigin rúmi. Rúm og sængurföt fullorðinna og það að sofa við hlið fullorðinna eykur hættu á köfnun.
 • Skiljið barn aldrei eftir á sófa, grjónapúða, í vatnsrúmi eða á brjóstagjafapúða. Andlit þess getur grafist ofan í mjúkt undirlagið og það kafnað.
 • Gætið þess að heimilisdýr komist ekki upp í rúm til smábarna og notið ávallt hlífðarnet á barnavagninn til að hindra að kettir eða önnur dýr komist inn í hann.
 • Fylgist vel með börnum sem eru að leika sér nálægt ungbarni og brýnið fyrir þeim að setja ekkert hjá barninu eða upp í munn þess sem getur valdið köfnun.
 • Skiljið ungbarn aldrei eitt eftir með pela og tryggið að litla barnið nái ekki í smáhluti.
 • Verið viss um að föt barnsins þrengi ekki að hálsi þess. Fjarlægið reimar og bönd úr fatnaði.
 • Setjið ekki hálsmen á ungbörn né aðra skartgripi og látið þau aldrei vera með snuð hangandi í snúru um hálsinn. Barn má aldrei sofa með snuðkeðju.

 

Drukknun

 • Víkið aldrei frá barni í baði, ekki eitt augnablik.
 • Treystið aldrei barni undir 12 ára aldri til þess að gæta kornabarns í baði. Þau hafa ekki þroska til að bera þá ábyrgð.
 • Munið að baðsæti eru ekki öryggisbúnaður og ekki má byrja að nota þau fyrr en barnið hefur náð 6 mánaða aldri.

 

Leikföng

 • Veljið einungis leikföng sem hæfa aldri og þroska barnsins. Leikföng þurfa að vera mjúk og létt.
 • Fylgist með hvers konar leikföng eldri börn rétta yngri börnum.
 • Plastbækur og baðbækur má ekki skilja eftir nálægt barninu s.s. í rúmi.

 

Útivera

 • Kannið vel að barnavagninn sé stöðugur og með góðum hemlum áður en hann er notaður í fyrsta sinn, hvort sem um nýjan vagn eða notaðan er að ræða.
 • Staðsetjið vagninn á skjólgóðum öruggum stað.
 • Beisli skal nota í vagna strax frá fyrsta degi.
 • Látið barnið ekki sofa úti í vagninum í miklu roki eða frosti.
 • Notið hlífðarnet yfir vagninn til að hindra að kettir og skordýr komist að barninu. Ekki setja teppi yfir vagnopið.
 • Gætið þess að eldri börn klifri ekki á vagninum á meðan barnið er í honum.
 • Þegar farið er yfir götu er mikilvægt að ganga á undan og toga vagninn á eftir sér.
 • Setjið endurskinsmerki á vagninn.
 • Ef notaður er magapoki gangið úr skugga um að hann sé rétt festur, þannig að engin hætta sé á að hann losni.

 

 

 

 

 

 

 

Síðast uppfært 31.05.2012