Ofbeldis- og slysavarnir

Starfsemi Embættis landlæknis á sviði ofbeldis- og slysaforvarna snýr að upplýsingaöflun, rannsóknum, fræðslu og vinnu við forvarnaverkefni.

Embætti landlæknis er miðstöð ofbeldis- og slysaforvarna á Íslandi og faglegur ráðgjafi stjórnvalda á því sviði. Embættið stuðlar að samvinnu meðal þeirra sem vinna að ofbeldis- og slysaforvörnum. Á vegum embættisins er jafnframt unnið að fræðsluefni um ofbeldis- og slysaforvarnir fyrir fagfólk og almenning til notkunar í skólum, á heilsugæslustöðvum, í íþróttamiðstöðvum og víðar.

Markmið með starfinu er að draga úr tíðni slysa og ofbeldis hér á landi. Jafnframt að fyrirbyggja að áfallaviðbrögð þeirra sem verða fyrir slysum og ofbeldi þróist í langvarandi heilsufarsvandamál með fræðslu um afleiðingar áfalla.

Mikilvægur þáttur í forvörnum slysa er öflun upplýsinga um algengi þeirra og greiningu á áhættuhópum. Embættið heldur úti miðlægum slysagagnagrunni, Slysaskrá Íslands, en árlega er gerð úttekt á algengi slysa hérlendis. Helstu markmið með gagnagrunninum eru að efla forvarnarstarf og gefa möguleika á ítarlegri rannsóknum á slysum. Slík rannsóknarvinna leiðir til markvissari forvarnarvinnu sem eykur líkur á að slysum fækki. Sem dæmi má nefna að mikill árangur hefur náðst í að draga úr slysatíðni barna hérlendis sem rekja má til öflugs forvarnarstarfs á því sviði undanfarin ár.

Tíðni ofbeldis- og slysa var könnuð í rannsókn embættisins Heilsa og líðan Íslendinga. Niðurstöður rannsóknarinnar veita mikilvægar viðbótarupplýsingar um slysatíðni hér á landi og einnig tíðni ofbeldis, málaflokks sem hefur verið minna rannsakaður. Þess má geta að engar faraldsfræðilegar rannsóknir hafa verið gerðar sem meta lífstíðaralgengi kynferðisofbeldis meðal landsmanna með jafn viðamikilli rannsókn og hér um ræðir.

Embættið er í samvinnu við erlendar og innlendar rannsóknarstofnanir, háskóla og heilbrigðisstofnanir um rannsóknir á sviði ofbeldis- og slysaforvarna. Meðal verkefna sem embættið tekur þátt í er „JAMIE“ (Joint Action Monitoring Injuries in Europe), á vegum Evrópusambandsins sem hefur það markmið að bera saman slysatíðni og orsakir slysa á milli Evrópuríkja og „Áratugur umferðaröryggis“, verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hefur það markmið að draga úr slysum í umferð næsta áratug.

Á vef Samgöngustofu má nálgast upplýsingar um öryggi barna í bíl.

Síðast uppfært 18.02.2020