Jafnrétti og kynheilbrigði

Sjá stærri mynd

Kynheilbrigði varðar bæði kynlífs- og frjósemisheilbrigði og er hluti af heilbrigði hvers einstaklings sem hefur áhrif á velferð hans.

Kynheilbrigði flestra ungmenna hér á landi má teljast gott en ýmislegt mætti þó betur gera eins og samanburður við Norðurlöndin og ýmis ríki Evrópu er til vitnis um.

Samkvæmt honum byrjar ungt fólk á Íslandi tiltölulega snemma að sofa hjá, sérstaklega stúlkurnar, og þær eiga flesta bólfélaga miðað við hin Norðurlöndin. Barneignir eru mun tíðari í þessum aldurshópi en á hinum Norðurlöndunum, þótt þeim hafi fækkað á undanförnum árum, en tíðni fóstureyðinga er næstlægst á Íslandi.

Kynsjúkdómar eins og klamydía og kynfæravörtur eru algengari hér á landi en á Norðurlöndunum, einnig klámáhorf ungra drengja. Notkun hormónagetnaðarvarna árið 2008 var aftur á móti lægst hér á landi, sala neyðargetnaðarvarna næsthæst og notkun smokks í yngstu aldurshópunum einna minnst á Vesturlöndum.


Margt má betur fara

Ef vel á að vera þarf að huga að ýmsum þáttum sem geta bætt kynheilbrigði unglinga og ungs fólks, svo sem að:

  • Hlúa vel að fjölskyldum og börnum á uppvaxtarárum þeirra. Á þann hátt stuðlum við að jákvæðum þroska ungmenna og ungs fólks og eflum sjálfsmynd þess og vellíðan. 
  • Draga úr kynsjúkdómasmiti, m.a. með góðu aðgengi að smokkum sem er eina vörnin gegn slíku smiti. 
  • Tryggja ungu fólki áfram ókeypis aðgang að skoðun, greiningu og meðferð kynsjúkdóma (HIV, lifrarbólgu, sárasótt, lekanda og klamydíu) á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum.
  • Veita aðgengi að hormónagetnaðarvörnum og fræðslu og ráðgjöf þar að lútandi.

 

Foreldrar og skólinn
Þar sem foreldrar eru gjarnan miklir áhrifavaldar í lífi barna og ungmenna þarf að bjóða þeim upp á fræðslu um kynheilbrigðismál. Það myndi efla öryggi foreldranna og þar með bæta samskipti um þessi málefni sem skipta börn og ungmenni miklu.

Einnig þarf að tryggja ungu fólki vandaða fræðslu um eigið kynheilbrigði í grunn- og framhaldsskólum. Skólakerfið er mikilvægt í þessu efni því að þar er hægt að ná til allra unglinga út frá mismunandi þroskastigum. Með markvissri fræðslu og viðhorfsvinnu í skólum er von til þess að unglingarnir verði meðvitaðri um eigin líkama, tilfinningar og samskipti og öðlist gagnrýni á utanaðkomandi áhrif og þrýsting. Þar með ættu þeir að geta varast betur neikvæðar afleiðingar kynlífs.


Móttaka fyrir unglinga
Unglingamóttaka fyrir ungt fólk á aldrinum 13–20 ára er rekin á Akureyri og er það eina móttakan á landinu sem er sérstaklega sniðin að þörfum unglinga og ungs fólks.

Meira framboð slíkrar sérhannaðrar þjónustu á fleiri stöðum á landinu myndi auðvelda ungu fólki aðgengi að smokkum og ávísunum á hormónagetnaðarvarnir ásamt upplýsingum um þær. Auk þess myndi slík þjónusta auðvelda greiningu kynsjúkdóma og þungana og veita aðstoð vegna félagslegra og sálrænna erfiðleika.

 

 

Síðast uppfært 18.12.2018