Kynheilbrigði og börn 6-12 ára

Á þessum árum eru börn oft ekki eins háð foreldrum sínum og þau voru áður. Þau geta oft verið feimin við að spyrja spurninga um kynferðisleg málefni en það þýðir ekki að þau langi ekki til þess.

Flest hafa þau heyrt ýmislegt, t.d. um nauðgun og misnotkun barna. Þau geta hins vegar verið með óljósar hugmyndir um hvað í þessu felst enda oft með ríkt ímyndunarafl. Það er ráðlegt að ræða við börn um slík mál og útskýra fyrir þeim hvað sé átt við. Það dregur úr ótta þeirra.

Átta til tólf ára
Á þessum aldri fara að verða líkamlegar breytingar hjá börnum og skiptir þá miklu máli að fræða þau um kynþroskann. Á þessum árum hafa þau oft miklar áhyggjur af því hvort þau sjálf og þessar breytingar séu eðlilegar.

Mikilvægt er að gera þeim ljóst að engir tveir einstaklingar séu eins. 

Um 12 ára aldur hafa flest börn fengið einhverja fræðslu í skólum um kynlíf og getnað. Á sama tíma verða þau meðvitaðri um hvaða áhrif kynsjúkdómar og ótímabærar þunganir geta haft á líf þeirra.

Foreldrar þurfa að vera opnir fyrir margvíslegum spurningum sem kunna að vakna hjá börnum á þessum árum.

Meiri upplýsingar um þroska barna á þessu aldursskeiði og samskipti foreldra og barna má finna í bæklingi sem vísað er í hér til hægri.

Síðast uppfært 16.06.2014