Hreyfing og börn 6-12 ára

Sjá stærri mynd

Dagleg hreyfing er börnum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt, þroska og andlega vellíðan. Hún er sameiginlegur leikur sem skapar meðal annars tækifæri til að þjálfa hreyfifærni, bæta líkamshreysti, eignast vini, auka félagslega færni og efla sjálfstraust.

Miklvægt er að kyrrseta barna sé takmörkuð og þau hreyfi sig í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu. Meginráðleggingin er að öll börn stundi miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í minnst 60 mínútur daglega. Heildartímanum má skipta í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn.

Börn ættu að hafa tækifæri til að stunda fjölbreytta hreyfingu sem þeim finnst skemmtileg og er í samræmi við færni þeirra og getu. Sum börn eru rólegri í tíðinni en önnur og þurfa meiri hvatningu til að hreyfa sig.

Skertur hreyfiþroski og önnur þroskafrávik gera börnum erfiðara fyrir að taka þátt í hópleikjum og getur almennt dregið úr löngun þeirra til að hreyfa sig. Því fyrr sem gripið er inn í og tekið á slíkum frávikum því meiri líkur eru á að barnið bæti færni sína, kynnist hreyfingu á jákvæðan hátt og tileinki sér lífsvenjur sem fela í sér daglega hreyfingu til framtíðar.

 Nánari uppplýsingar á Heilsuveru

Síðast uppfært 27.09.2021