Hreyfing

Sjá stærri mynd

Rannsóknir staðfesta að hreyfing er einn af lykiláhrifaþáttum heilbrigðis á öllum æviskeiðum.

Meginmarkmið starfsemi Embættis landlæknis á sviði hreyfingar er að sporna gegn kyrrsetulíferni og stuðla að því að sem flestir landsmenn, á öllum aldri, hreyfi sig í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu. Það er gert með því að horfa til þeirra fjölmörgu þátta sem hafa áhrif á daglega hreyfingu, m.a. í tengslum við ferðamáta, vinnu og skóla, frítíma og heimilisverk.

Embætti landlæknis vinnur fræðsluefni og annað stuðningsefni um hreyfingu og leggur áherslu á náið samstarf við viðeigandi hagsmunaaðila um að skapa aðstæður sem hvetja til hreyfingar. Má þar sem dæmi nefna ráðuneyti, sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, skóla og félagasamtök.

Til að fylgjast með þróun á hreyfivenjum sér Embættis landlæknis um vöktun á hreyfingu í samvinnu við önnur Norðurlönd og gögnum um hreyfingu hefur auk þess verið safnað, t.d. í tengslum við landskönnunina Heilsa og líðan Íslendinga og landskannanir á mataræði. 

Embætti landlæknis er faglegur ráðgjafi stjórnvalda um hreyfingu og birtir ráðleggingar um hreyfingu í samvinnu við helstu sérfræðinga á sviði hreyfingar hér á landi.

Embættið er aðili að HEPA Europe, evrópsku neti sérfræðinga um hreyfingu til heilsubótar, sem vinnur náið með Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

 

Síðast uppfært 20.10.2015