Áfengis- og vímuvarnir og fullorðnir

Sjá stærri mynd

Notkun áfengis hefur fylgt manninum frá örófi alda og í margvíslegum tilgangi. Því er eðlilegt að fólk spyrji hvort ekki sé óhætt að drekka áfengi í hófi. Nýlegar rannsóknir benda til þess að engin þekkt mörk séu fyrir skaðlausri áfengisdrykkju.

Þeir sem neyta áfengis þurfa að vera meðvitaðir um þá líkamlegu- og félagslegu áhættu sem fylgt getur áfengisdrykkju. Því meira magn áfengis sem drukkið er því meiri hætta. Að auki er kynja- og aldursmunur á því hvernig líkaminn bregst við áfengi. Meðal annars út frá líffræðilegum orsökum þola konur áfengi verr en karlar.

Skaðleg áhrif áfengisdrykkju er alþjóðlegt vandamál sem ógnar bæði þroska einstaklinga og samfélaga, sérstaklega í Evrópu og öðrum hátekjuríkjum. Einstaklingur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna getur skaðað aðra eða sett þá í hættu, t.d. í umferðarslysum, með ofbeldisfullri hegðun eða haft neikvæð áhrif á ættingja, vini, ókunnuga, vinnufélaga og vinnuframlag. Á þennan hátt geta áhrif áfengisdrykkju eða notkun annarra vímuefna haft töluverð neikvæð áhrif á samfélagið. Notkun áfengis eða annarra vímuefna er því ekki einkamál hvers og eins.

Skaði

Víða erlendis hafa verið gefin út viðmið um hvað telja megi hófdrykkja en hérlendis hafa slík viðmið ekki verið sett með formlegum hætti. Markmið með slíkum viðmiðum er ekki að segja til um hvað sé æskilegt magn að drekka heldur gefa hugmynd um hvar mörkin gætu legið og þá hættu á heilsuskaða sem getur fylgt því að fara yfir viðmiðin. Nýjustu rannsóknir benda þó til þess að engin þekkt mörk eða viðmið finnist um skaðlausa notkun áfengis.

Drykkjumynstur fólks er mismunandi, annars vegar getur verið um að ræða ölvunardrykkju þar sem mikið magn áfengis er drukkið í hvert sinn og hins vegar að minna magn áfengis sé drukkið í hvert sinn. Notkun þess sé tíð og nái yfir langan tíma. Einnig getur neyslumynstrið verið blanda af þessum tveimur þáttum, þ.e. ölvunardrykkja og að áfengis sé neytt í minna magni þess á milli. Vegna þessa er talað um skammtíma- eða langtímaskaða vegna áfengisdrykkju. Í Talnabrunni má sjá nýjustu umfjöllun um áfengisnotkun fullorðinna Íslendinga.

Engin áfengisnotkun

Vert er að ítreka að samkvæmt 18. gr. áfengislaga er óheimilt að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára. Lögunum er m.a. ætlað að vernda heilsu ungs fólks því áfengisneysla hefur sérstaklega skaðleg áhrif þegar líkaminn er enn að þroskast. Ungmenni undir tvítugt eiga því alls ekki að neyta áfengis.
Fólk í ákveðnum hópum ætti ekki að drekka áfengi, þar er m.a. átt við barnshafandi konur, þá sem eru á lyfjum s.s. verkjastillandi, svefnlyfjum, krampalyfjum, hjarta- og blóðþrýstingslyfjum og öllum lyfjum með rauðum þríhyrning. Fólk með sjúkdóma ætti að leita ráðlegginga læknis varðandi áfengisnotkun.


Áfengisdrykkja hefur áhrif á fleiri en neytandann

Áfengisdrykkja hefur áhrif á heilsu neytandans, dómgreind og hæfileika til að framkvæma af skynsemi. Það er því ærin ástæða til að vera meðvituð um eigin áfengisnotkun og sýna þar skynsemi - einnig vegna annarra. Áfengisdrykkja er nefnilega ekki einkamál þess sem drekkur áfengi, hún hefur oftar en ekki líka áhrif á vini og vandamenn, sem og samfélagið allt.

Síðast uppfært 04.02.2021