Áfengis- og vímuvarnir og eldra fólk

Áfengisdrykkja eldra fólks virðist vera að aukast og á það jafnt við hérlendis sem erlendis. Þeir sem eldri eru ættu að hafa varann á áfengisnotkun sinni þar sem þol þeirra gagnvart áfengi er minna en áður. Þegar einstaklingar nálgast efri ár er mikilvægt að takmarka eða hætta allri áfengisnotkun. Ástæðan er sú að aukin hætta á óhöppum og sjúkdómum fylgir því að eldast og nota áfengi.

Heilabilun: Langvarandi notkun áfengis eykur hættuna á að fá heilabilun.

Lyf: Algengt er að aldraðir þurfi að taka lyf og getur áfengisnotkun haft áhrif á virkni lyfjanna.

Áhrif á sjúkdóma: Aldraðir hafa oft sjúkdóma sem geta versnað við áfengisnotkun. Sem dæmi má nefna hjartasjúkdóma, hækkaðan blóðþrýsting, svefnvandamál og þvagleka.

Viðkvæm líffæri: Aldraðir eru viðkvæmari fyrir áfengi. Þetta stafar að hluta til af því að starfsemi líffæra er minni hjá öldruðum.

Fituvefir: Breyting verður á fitusamsetningu líkamans hjá öldruðu sem hefur áhrif á aukið áfengismagn í líkamanum.

Krabbamein: Áfengi eykur hættu á krabbameini í líffærum sem komst í snertingu við áfengi. Þetta á við um munnhol, kok, vélinda, háls, brjóst, lifur, ristil og endaþarm.

Óhöpp: Tíðni slysa er mun algengari hjá öldruðum sem nota áfengi.

Svefn: Einhverjir kjósa að nota áfengi í litlu magni til að auðvelda svefn, sérstaklega þegar viðkomandi er undir líkamlegu eða andlegu álagi. Áfengi hefur hins vegar neikvæð áhrif á svefnlengd og gæði svefns.

Örugg mörk áfengisnotkunar eru ekki þekkt og sýnt hefur verið fram á að jafnvel hófleg notkun eykur hættu á ýmsum sjúkdómum og eykst áhættan eftir því sem notkunin er meiri. Þeir sem hafa ákveðna sjúkdóma ættu alls ekki að drekka áfengi þar með talin lifrarsjúkdóm, magasár, hjartsláttartruflanir, skerta hugræna getu, hafa skert jafnvægisskyn . Auk þess ætti að gæta sérstakrar varúðar að nota áfengi samhliða lyfjameðferð og þá sérstaklega ef um er að ræða lyf sem virka á taugakerfið.

Síðast uppfært 04.02.2021