Áfengis- og vímuvarnir

Sjá stærri mynd

Starfsemi Embættis landlæknis á sviði áfengis- og annarra vímuefnavarna skiptist í öflun og miðlun upplýsinga, stefnumótun, heilsueflingarverkefni og rannsóknir.

Embætti landlæknis  veitir faglega ráðgjöf um stefnumótun, rannsóknir og önnur málefni er varða áfengis- og vímuvarnir. Einnig stuðlar embættið að samvinnu og samræmingu meðal þeirra sem vinna að vímuvörnum. Á vegum embættisins er unnið fræðsluefni um áfengi og önnur vímuefni fyrir fagfólk og almenning.

Meginmarkmið starfsins er að draga úr eða koma í veg fyrir skaða sem neysla vímugjafa hefur á einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið. Sérstök áhersla er lögð á að koma í veg fyrir eða seinka því að ungt fólk hefji neyslu á löglegum eða ólöglegum vímugjöfum. 

Á vegum embættisins eru reglulega unnar kannanir á notkun löglegra og ólöglegra vímuefna meðal landsmanna.

Embættið hvetur til þess að aðstoð verði aukin við þá sem vilja hætta eða draga úr neyslu áfengis og vinnur að því að efla heilbrigðisstarfsfólk í daglegu starfi sínu.

Embættið er í samvinnu við erlendar og innlendar stofnanir, háskóla og sambærileg embætti  um rannsóknir og forvarnir á sviði áfengis- og annarra vímuefnavarna.

 

Síðast uppfært 18.04.2017