Áfengis- og vímuvarnir

Sjá stærri mynd

Embætti landlæknis veitir faglega ráðgjöf um stefnumótun, rannsóknir og önnur málefni er varða áfengi og önnur vímuefni. Einnig stuðlar embættið að samvinnu og samræmingu meðal þeirra sem vinna að vímuvörnum.

Forvarnir eiga sér stað í mismunandi lögum samfélagsins. Áfengisnotkun ungmenna, óhófleg áfengisnotkun eða skaðlegt neyslumynstur á sér oft rætur í samspili menningar, samfélagslegra- og einstaklingsbundinna þátta. Mikil og almenn notkun áfengis og annarra vímuefna hefur alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild. Sem dæmi um afleiðingar má nefna heilsubrest, sjúkdóma, slys, atvinnuleysi, langvarandi félagsleg vandamál eða dauðsföll.

Meginmarkmið forvarnarstarfs er að draga úr eða koma í veg fyrir skaða sem notkun áfengis eða annarra vímuefna hefur á einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild. Sérstök áhersla er lögð á að koma í veg fyrir eða seinka því að ungt fólk hefji notkun.

Embættið fylgist reglulega með völdum áhrifaþáttum heilbrigðis, þar á meðal notkun áfengis og annarra vímuefna meðal landsmanna. Embættið er auk þess í samvinnu við erlendar og innlendar stofnanir, háskóla og sambærileg embætti um rannsóknir og forvarnir.

Áfengi er stór áhrifavaldur heilsubrests og einn af fjórum algengustu áhættuþáttum fyrir ósmitbærum sjúkdómum og árlega deyja um þrjár milljónir einstaklinga á heimsvísu af áfengistengdum orsökum. Áfengisnotkun hefur áhrif á myndun ýmissa tegunda krabbameina, sykursýki, hjartasjúkdóma, skorpulifur og heilablóðfalls.


Áfengisdrykkja er ekki einkamál

Í rannsókn á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar (NVC) kemur fram að margir verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna áfengisdrykkju annarra, bæði frá fjölskyldumeðlimum, vinum, kunningjum og ókunnugum. Í íslensku niðurstöðunum kemur m.a. fram að nærri þriðjungur Íslendinga 18 ára og eldri hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum vegna áfengisdrykkju annarra í sínu nánasta umhverfi. Konur og yngra fólk verður frekar fyrir neikvæðum áhrifum vegna drykkju annarra. Niðurstöður úr rannsóknum eins og þessum eru mikilvægar í allri stefnumörkun í lýðheilsu og áfengismálum allt frá hlutum eins og aðgengi að áfengi til barnaverndar og vinnuverndar.

Ráðleggingar embættisins varðandi notkun áfengis

 • Það eru engin þekkt viðmið um skaðlausa notkun áfengis
 • Ekki er hægt að drekka áfengi til heilsubótar
 • Hættu að drekka áður en fimm drykkjum er náð við sama tilefni
 • Barnshafandi konur eiga alfarið að sleppa því að drekka áfengi. Konum sem eru að reyna að verða barnshafandi er einnig ráðlagt að sleppa alveg áfengi – til öryggis
 • Eldra fólki er ráðlagt að forðast áfengi
 • Áfengi getur haft áhrif á virkni lyfja
 • Börn og ungt fólk undir aldri til áfengiskaupa eiga alls ekki að drekka áfengi

Hugtök:

Ölvunardrykkja: Er skilgreind með inntöku fimm eða fleiri áfengra drykkja við sama tilefni.

Skaðleg notkun áfengis: Skilgreint út frá flokkunarkerfi Alþjóðaheilbrigðismálstofnunarinnar ICD-10, meðal annars með tilliti til hvort notkunin hafi leitt til skaða á líkama eða geðheilsu án greiningarinnar „fíkn" eða „sýki".

Fikt: Á við um einstaka og skammtíma notkun vímuefna. Fikt getur leitt til reglulegrar notkunar

Regluleg notkun: Endurtekin og langvarandi notkun vímuefna. Regluleg notkun getur leitt til misnotkunar vímuefna eða fíknar.

Misnotkun: Viðvarandi og skaðleg notkun vímuefna. Skaðinn er bæði andlegur og líkamlegur ásamt því að hafa áhrif á félagsleg tengsl.

Ávani eða fíkn: Einstaklingur er háður áfengi eða öðrum vímuefnum þegar þrjú eða fleiri af viðmiðum WHO um fíkn eru uppfyllt. Viðmiðin eru:

 • Fíkn (þrálát löngun til að nota vímuefni)
 • Stjórnleysi
 • Líkamleg fráhvarfseinkenni
 • Þolmyndun
 • Minni áhugi á öðru eða eyðir miklum tíma í að verða sér út um áfengi eða önnur vímuefni
 • Áframhald notkunar vímuefna þrátt fyrir vitneskju um skaðleg áhrif

Síðast uppfært 28.09.2021